160 milljóna króna tap hjá Fljótsdalshéraði
Sveitarfélagið Fljótsdalshérað tapaði rúmlega 160 milljónum króna á síðasta ári þrátt fyrir að áætlanir gerðu ráð fyrir hagnaði. Veltufé frá rekstri hefur á móti aukist.
Rúmlega 650 milljóna hagnaður varð af rekstri sveitarfélagsins fyrri afskriftir, fjármagnsliði og tekjuskatt sem er bati frá árinu á undan. Þegar þessir liðir eru teknir með í reikninginn er niðurstaðan hins vegar 160 milljóna tap þótt gert hafi verið ráð fyrir 20 milljóna afgangi.
Í fréttatilkynningu sveitarfélagsins er verri afkoma skýrði með „óhagstæðri verðlags-, vaxta og gengisþróun“ en fjármagnsgjöld hækkuðu um tæpar 400 milljónir króna á milli ára. Í ársreikningi kemur einnig fram að útsvarstekjur eru 80 milljónum krónum minni en áætlað var.
Skatttekjur eru samt hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Munar það mestu framlag úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna flutnings umsjónar með málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna.
Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins eru rúmum 130 milljónum hærri en gert var ráð fyrir. Laun og launatengd gjöld bæjarstjóra og bæjarstjórnar námu 25,5 milljónum króna á árinu. Í árslok 2011 starfaði 295 starfsmaður hjá sveitarfélaginu í 231 stöðugildi.
Forsvarsmenn Fljótsdalshéraðs segja aukna framlegð í rekstri sveitarfélagsins skila sér í meiri fjármundamyndun. Veltufé frá rekstri hafi aukist um 143 milljónir króna milli ára og aðeins vanti 19 milljónir í árslok 2011 upp á að það standi undir afborgunum langtímaskuldbindinga. Áætlanir næstu ára gera ráð fyrir að veltuféð verði meira en afborganirnar á þessu ári.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins námu 2,9 milljörðum króna og hækkuðu um tæpan hálfan milljarð. Mestu munar um tekjuaukningu vegna málefnis fatlaðra. Sú tekjuaukning fer á móti öll í að greiða fyrir málaflokkinn sem færðist til sveitarfélaganna í ársbyrjun 2011.
Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur árið 2011 námu 624 milljónum króna samanborið við 228 milljónir kr. árið 2010. Afkoma sveitarfélagsins á árinu 2011 er því um 174 millj. kr. lakari miðað við árið 2010.