Þörf á að efla eldvarnir í sveitum: Mikilvægt að vekja bændur til umhugsunar um eigið eftirlit

flugvollur 20ar opinn 0048 webSlökkvistjóri Fljótsdalshéraðs segir nauðsynlegt að efla umræðu um brunavarnir í landbúnaðarbyggingum. Breytingar hafa orðið í landbúnaði undanfarin ár sem skapa aukna brunahættu. Opinn fræðslufundur verður haldinn um efnið á mánudag.

„Ég mun fara í gegnum eldvarnir í gripahúsum og mannvirkjum í landbúnaði og hvað er að gerast. Við höfum séð breytingar eins og að hlöður eru orðnar að vélageymslum og það skapar vissa hættu," segir Baldur Pálsson, slökkviliðsstjóri.

Auk hans verða Einar Ólason og Guðmundur Hallgrímsson frummælendur. Einar var meðal þeirra fyrstu hérlendis sem settu upp brunaviðvörunarkerfi í gripahúsum en Guðmundur hefur meðal annars velt fyrir sér ógnum skógarbænda.

Baldur segir mikilvægt að vekja bændur til umhugsunar um sitt eigið eldvarnaeftirlit sem yfirleitt sé það öflugasta. Eins þurfi að ræða brunaeftirlit sveitarfélaga.

„Við þurfum á fundinum móta stefnu um hvernig við ætlum að standa að þessu áfram. Það þarf að leggja vinnu í að fara í eftirlitsferðir um sveitirnar en í það hafa ekki verið til peningar."

Brunar í sveitum valda miklu eignatjón auk þess sem byggingar séu víða hættulegar. Baldur nefnir sem dæmi gripahús sem séu einangruð með plasti. Ef í þeim kviknar myndast eldregn sem Baldur lýsir sem „skelfilegum aðstæðum."

Þótt reglulega berist fréttir af slæmum afleiðingum bruna á sveitabæjum segir Baldur að það fenni yfir minningarnar. Því þurfi umræðan stöðugt að vera í gangi.

BSA og Brunavarnir á Héraði hafa tekið sig saman um að halda fræðslufund um brunavarnir í landbúnaði n.k. mánudag í Fjóshorninu kl. 14.00

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar