Björgunarsveitarmenn voru í fjóra tíma að moka snjó ofan af þaki

modrudalur snjomokstur vopniNíu félagar úr björgunarsveitinni Vopna voru í fjóra tíma á sunnudag að moka ofan af húsþaki í Möðrudal. Formaður sveitarinnar segir að snjórinn hafi verið um fimm metrar þar sem hann var þykkastur.

„Það gætu hafa verið hafa verið einir fimm metrar ofan á þakið þar sem mest var. Þetta var gríðarlegt magn af snjó," segir formaðurinn, Jón Sigurðarson.

Bóndinn í Möðrudal óskaði eftir hjálp við að moka ofan af húsi á rafstöð sem hann óttaðist að myndi gefa sig undan snjóþunga þegar hlánaði eftir helgina.

„Húsið er ofan í gili og ekki hægt að koma að neinum tækjum. Því var ekki um annað að gera en moka ofan af því með höndunum," segir Jón.

Á leiðinni heim komu björgunarsveitarmennirnir að flutningabíl á Háreksstaðaleið sem farið hafði út af veginum „nánast á eina staðnum þar sem það var hægt" en meðfram löngum kafla á veginum eru snjógöng.

Ekkert amaði að bílstjóranum en farmurinn voru þorskhausar í körum. Hífa þurfti bílinn upp með krana sem ekki varð komið að á sunnudag.

Jón segir töluvert hafa verið um útköll hjá Vopna frá áramótum, flest út af ófærð. Hann segir „ófremdarástand" á Vopnafjarðarheiði og mikill snjór sé í kringum veginn frá Langadal og langt austur á Vopnafjarðarheiði.

Í gær var björgunarsveitin kölluð út til að loka leiðinni upp á heiðina með slá og standa vörð um hana. Fyrr um daginn var sveitin kölluð til af lögreglunni til að veiða dautt hreindýr, sem hafði orðið fyrir bíl og lent út í á, upp úr ánni.

Mynd: Jón Sigurðarson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar