Skoða Eskifjörð fyrir Norrænu: Erfitt fyrir sveitarfélög að hafna óskum fyrirtækja um viðræður um þjónustu
Hafnarstjórn Fjarðabyggðar og bæjarráð samþykktu í vikunni að halda áfram viðræðum við Smyril-Line, útgerð Norrænu, um mögulegar siglingar ferjunnar til Eskifjarðar í stað Seyðisfjarðar. Bæjarstjóri segist gera sér grein fyrir að málið sé flókið en erfitt sé fyrir sveitarfélög að hafna óskum fyrirtækja um viðræður um þjónustu.„Þetta þýðir að viðræðum verður haldið áfram. Það er síðan ómögulegt að segja hvert þær leiða," segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
„Málið snýst fyrst og fremst um að öllum sveitarfélögum er skylt að svara fyrirtækjum þegar þau óska eftir þjónustu. Ef fyrirtækið sjálft hugsar sér til hreyfings er erfitt fyrir sveitarfélag að hafna óskum um viðræður. Við gátum ekki séð að það væri hægt."
Fjarðabyggð samþykkti í byrjun nóvember að verða við ósk Smyril-Line um viðræður um mögulegar siglingar ferjunnar til Fjarðabyggðar. Páll Björgvin segir að síðan hafi verið haldnir tveir fundir sem fyrst og fremst hafi snúist um hvaða hafnarkostir væru í boði innan Fjarðabyggðar.
Forsvarsmenn fyrirtækisins hafi sjálfir farið um og skoðað hafnirnar. Niðurstaða þess hafi verið að skoða Eskifjörð betur.
„Það passar við stefnumótun okkar um að móttaka farþegaskipa verði á Eskifirði. Aðrar hafnir eru fráteknar fyrir annað, Reyðarfjörður til dæmis fyrir olíuleit, sem við erum sannfærðir um að komi til okkar. Þetta fór því ágætlega saman."
Páll Björgvin segir ekki búið að útfæra að fulla hvað þurfi að gera á Eskifirði til að ferjan geti lagst þar að bryggju né hvort hún færi sig alfarið eða aðeins að vetri til. Í erindi Smyril-Line þegar óskað var eftir viðræðunum í byrjun var sérstaklega talað um vetrarsiglingar og Fjarðarheiði sem farartálma.
Viðræðurnar hafa vakið töluverða úlfúð meðal Seyðfirðinga, þangað sem Norræna siglir allt árið í dag, sem margir telja Fjarðabyggð hafa sýnt minna sveitarfélagi yfirgang og réttast hefði verið að hafna viðræðunum.
„Ég geri mér grein fyrir að þetta er ekki létt eða auðvelt mál vitandi hversu mikil áhrif þetta getur haft á það sveitarfélag sem þjónustan er veitt í dag en við gátum ekki neitað fyrirtækinu um viðræður. Það er svo óljóst hvert þær leiða."