Hafna kröfu um afturköllun nýtingarleyfis Fjarðabyggðar á grunnvatni í Fannardal
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu eigenda jarðarinnar Fannardals í Fannardal um að fella úr gildi nýtingarleyfi Fjarðabyggðar á vatni í landi Tandrastaða í Fannardal. Eigendur Fannardals hafa krafið sveitarfélagið um endurgjald fyrir vatnstökuna.Rúm tíu ár eru síðan Fjarðabyggð hóf að taka kalt vatn í landi Tandrastaða fyrir Norðfjörð. Sveitarfélagið greiðir landeigendum annars vegar samkvæmt samningum en hins vegar eftir gerðadóm sem féll árið 2009.
Landeigendur nágrannajarðarinnar Fannardals hafa einnig krafið sveitarfélagið um gjald fyrir vatnsauðlindina en ekki fengið það. Þeir telja um sameiginlega auðlind að ræða en á það hefur Orkustofnun ekki fallist þar sem nýting Fjarðabyggðar rýri ekki nýtingarmöguleika Fannardals.
Eigendur Fannardals kærðu fyrir tveimur árum útgáfu Orkustofnunar á nýtingarleyfi til úrskurðarnefndarinnar, meðal annars á þeim forsendum að stofnunin hefði ekki rökstutt að eigendur jarðarinnar yrðu ekki fyrir tjóni af nýtingunni.
Þeir lögðu fram álit jarðfræðings þar sem gerðar voru ýmsar athugasemdir við þær greinargerðir sem lagðar voru fram af hálfu Fjarðabyggðar og afstaða Orkustofnunar byggðist á.
Úrskurðarnefndin taldi ekkert athugavert við vinnubrögð stofnunarinnar og hafnaði kröfu um afturköllun leyfisins. Nefndin vísaði meðal annars á að sýna þyrfti fram á eignarrétt yfir sameiginlegum auðlindum. Ekki væri hlutverk Orkustofnunar að jafna eignarréttarlegan ágreining rannsaka frekar eignarhald auðlinda þegar stofnunin hefði fullvissað sig um að skilyrðum fyrir útgáfu nýtingarleyfis hefði verið fullnægt.
Þá er í niðurstöðum vísað til ákvæðis í lögum um að sveitarfélög hafi forgangsrétt til nýtingar grunnvatns í þágu samfélagslegra hagsmuna.
Úrskurðarnefndin hafnar hins vegar fullyrðinginu Fjarðabyggðar um að ekki sé um sameiginlega vatnsauðlind að ræða. Þá er vísað til þess að afla skuli dómskvaddra matsmanna til að skera úr um ágreining milli rétthafa um nýtingu sameiginlegra auðlinda.