Skip to main content

Steingrímur J. vill leiða lista VG

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. nóv 2012 13:56Uppfært 13. nóv 2012 14:00

Steingrímur J. Sigfússon

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnu- og nýsköpunarmálaráðherra, tilkynnti í morgun að hann vildi leiða lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðausturkjördæmi. Hann hefur setið í efsta sæti VG og áður Alþýðubandalagsins í Norðaustur og Norðurlandskjördæmi eystra frá árinu 1983.

„Hugur minn stendur til þess að viðhalda í fyrsta lagi þeirri sterku stöðu sem Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur byggt upp, bæði í Norðausturkjördæmi sem og á landsvísu,“ segir í tilkynningu Steingríms.

„Í öðru lagi að leggja í dóm kjósenda ótvíræðan árangur ríkisstjórnarinnar við uppbyggingu landsins eftir efnahagshrun nýfrjálshyggjunnar og svara fyrir verk hennar í kosningabaráttunni. Samhliða og nátengt er að leggja grunn að áframhaldandi samstarfi félagslega sinnaðs fólks við landsstjórnina á komandi kjörtímabili. 

En í þriðja lagi og ekki síst vil ég ásamt félögum mínum um allt land leggja fram krafta mína í þágu vinstri stefnu, umhverfisverndar, kvenfrelsis, friðarbaráttu og félagslegrar alþjóðahyggju.

Með þá reynslu að vopni sem hartnær 30 ára seta á Alþingi og meira og minna samfelld forustustörf í íslenskum stjórnmálum í aldarfjórðung hafa fært mér vonast ég til að geta enn um sinn lagt lóð á vogarskálar baráttunnar fyrir samfélagi jafnaðar og sjálfbærrar þróunar þannig að heldur muni um.“