Veðrið gengið niður og byrjað að moka

Óveður á Austurlandi

Óveðrið sem geisað hefur á Austurlandi undanfarna þrjá daga er gengið niður. Mokstur stendur yfir á öllum helstu leiðum.

Það var upp úr kvöldmat í gær sem veðrið fór að ganga niður. Eftir það sló samt út rafmagni í spennistöðinni á Hryggstekk í Skriðdal og voru íbúar á Upphéraði án rafmagns í nokkra klukkutíma.

Tveir hópar frá Björgunarsveitinni Héraði voru að störfum í allan gærdag við almenna ófærðaraðstoð, draga upp bíla, aka heilbrigðisstarfsfólki til og frá vinnu og koma matarbökkum til eldri borgara. 

Snjóbíllinn var nýttur í gærmorgun til að koma heyi til hrossa við Finnsstaðaholt og þaðan fór hann í aðstoð við Landsnet en gæta þarf að ísingu á rafmagnslínum í veðrinu.

Snjómokstur stendur yfir á flestum vegum Austurlands, Fjarðarheiði, Skriðdal, Möðrudalsöræfum og á leiðinni til Borgarfjarðar. Fært er orðið yfir Fagradal og Fjarðarheiði. 

Þá er verið að moka íbúagötur í þéttbýli, til að mynda á Egilsstöðum þar sem miklum snjó kyngdi niður í óveðrinu.

Flugsamgöngur eru óðum að komast í samt horf en ekkert hefur verið flogið milli Egilsstaða og Reykjavíkur síðan á miðvikudagskvöld.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar