Björgunarsveitir kallaðar út til aðstoðar lekum bát í Reyðarfirði

landsbjorg sjobjorgun webBjörgunaraðgerðir í Reyðarfirði gengu vel í dag þegar sjóflokkar björgunarsveita á Austurlandi voru kallaðir út eftir að tilkynning barst um lekan bát í mynni Reyðarfjarðar. Um var að ræða lítinn fiskibát með einum manni um borð.

„Þetta gekk mjög vel. Það var gott í sjóinn og fínar aðstæður," segir Guðjón Már Jónsson úr svæðisstjórn björgunarsveitanna.

Björgunarsveitirnar voru kallaðar út rúmlega þrjú í dag. Lekinn var töluverður og báturinn kominn á hliðina nokkrum mínútum eftir að neyðarkallið var sent út.

Björgunarbátur frá Björgunarsveitinni Ársól í Reyðarfirði kom á staðinn um hálftíma eftir að kallið barst. Sjómaðurinn var heill á húfi og hafði tekist að rétta við bátinn og var byrjaður að sigla í land. Honum var síðan fylgt inn til Eskifjarðar.

Töluverð hætta var á ferðum um tíma og var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út en henni snúið við eftir að björgunarsveitarmenn voru komnir á staðinn. Nærliggjandi bátum var beint á svæðið og einnig fóru björgunarsveitamenn landleiðina út fjörðinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar