Enn ekkert ferðaveður eystra

Mikið og vont veður á Borgarfirði Eystri, bryggjan berst við sjóinn

Veðrið á Austurlandi er heldur tekið að lagast. Fjallvegir eru þó enn ófærir og ekkert ferðaveður á svæðinu. Ekki er gert ráð fyrir að veðrið lagist að ráði fyrr en í fyrramálið.

Björgunarsveitin Gerpir á Norðfirði var kölluð út rétt fyrir miðnætti til að aðstoða bíl sem fór út af í Oddsskarði.

Ófært um austfirska fjallvegi aðra en Oddsskarðið þar sem er enn talsverður snjór. Stórhríð er enn á Möðrudalsöræfum en moksturstæki eru að störfum í Skriðdal.

Veðrið er samt heldur tekið að lagast og íbúar farnir út til að moka frá húsum sínum. Veðurstofan spáir áframhaldandi norðanhvassviðri og úrkomu þar til í fyrramálið.

Dagskrá Daga myrkurs er aftur að komast í samt lag eftir frestanir vegna veðurs síðustu daga. Eskfirðingar ætla að hittast klukkan 12:30 á Mjóeyri og fara í leiki en þar eru skipulagðir ástardagar. Á móti er lokað hjá Myndsmiðjunni á Egilsstöðum vegna ófærðar innanbæjar en þar átti að vera langur laugardagur. Í Neskaupstað verður rokkveisla BRJÁN, „Með sítt að aftan“ frumsýnd í kvöld.

Brimið barði á höfninni á Borgarfirði eystri í um helgina en Helga Björg Eiríksdóttir tók þar meðfylgjandi mynd. Fleiri myndir af svæðinu má sjá á vef Borgarfjarðarhrepps.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar