Það vildu allir eignast sparisjóðinn: Óttuðust að missa hann úr heimabyggð
Stofnfé var aukið í Sparisjóði Norðfjarðar árið 2007 til að reyna að tryggja áframhaldandi vald heimamanna yfir sjóðnum. Fréttir höfðu borist af útsendurum sem buðu stofnfjáreigendum „gull og græna skóga" fyrir hlut þeirra í sjóðnum.Þetta kemur fram í kafla um Sparisjóð Norðfjarðar í Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna sem kom út í gær.
Ráðist var í stofnfjáraukninguna haustið 2007 þegar stofnféð var aukið úr þrettán milljónum í 217. Í árslok 2006 voru stofnfjáreigendur 77 talsins en 79 ári síðar. 75 stofnfjáreigendur tóku þátt í aukningunni, þar af tóku 13 lán hjá Saga Capital.
Ótti við að missa sparisjóðinn og þar með eigið fé hans úr heimabyggð virðist hafa ráðið för þegar ráðist var í aukninguna. Haft er eftir þáverandi stjórnarformanni, Jóni Kr. Ólafssyni, að stofnfé í sjóðnum hafi verið eftirsótt og fregnir borist af því að „menn að sunnan" hefðu boðið „gull og græna skóga og allt upp í tíu milljónir fyrir hlut í sjóðnum."
Lýsing Vilhjálms G. Pálssonar, sparisjóðsstjóra er á sömu leið. „Útsendarar" eða „milliliðir að reyna að græða" hafi komið og boðið í stofnfé. Hann segir stjórnendur sjóðsins hafa verið hrædda „um að missa allt féð úr sparisjóðnum úr heimabyggðinni og inn í hít fyrir sunnan."
Hann viðurkennir þó að engin formleg erindi hafi borist um þetta inn til sparisjóðsins. „Það var í sjálfu sér ekki komið til mín og verið að pressa á þetta. Eða maður heyrði ekki af því að stofnfjáreigendur væru eitthvað mikið að pressa á þetta. Þetta var kannski eitthvað sem menn voru að sjá í kringum sig og aðra vera að gera. En stjórnin var bara hrædd um að missa sjóðinn frá sér."
Ekkert varð af sameiningu í norður
Fleiri leiðir voru skoðaðar. Rætt var um sameiningu við aðra sparisjóði á norðausturhluta landsins, Þórshöfn, Suður-Þingeyjarsýslum og Höfðahverfi. Gert var ráð fyrir að fyrir sameiningu yrði sjóðunum breytt í hlutafélagasjóði og þeir síðan sameinaðir þannig að til yrði sjálfseignarstofnun á hverjum stað. Með því átti að tryggja að hvert starfssvæði nyti ágóðans af uppsöfnuðum varasjóði.
Viðræðurnar báru ekki árangur en á stofnfjárfundi 27. nóvember 2007 var veitt heimild til stofnfjáraukningarinnar og farið yfir hugmyndir um að honum yrði breytt í hlutafélag. Jón Kr. ræddi á fundinum um stöðu sjóðsins í ljósi mikilla hræringa í fjármálakerfinu.
Hann benti á að „mikil lækkunarhrina" hefði hafist á fjármálamörkuðum síðari hluta ársins með fjármálafyrirtæki í broddi fylkingar. Það drægi úr hagnaði sjóðsins en staða hann væri þó „sterk og traust." Hann varaði þó við að ávallt fylgdi „einhver áhætta fjárfestingum í öllum félögum."
Jón sagði þar nauðsyn að styrkja sjóðinn þannig hann væri tilbúinn að takast á við væntanlegar breytingar í umhverfi fjármálafyrirtækja. Hann kvaðst ekki sjá fyrir sér að sjóðurinn gæti sameinast örðum án breytinga fyrst. Og honum hugnaðist ekki möguleikinn á að sameinast stærri sjóði af höfuðborgarsvæðinu.
„Þar á ég við að sameining sparisjóðsins sem stofnfjársparisjóður við annan mun stærri á suðvesturhorninu sem dæmi hámarkar að vísu arð til stofnfjáreigenda en skilur ekkert eftir í samfélaginu af þeim fjármunum sem hér hafa orðið til í gegnum áratugina og ávallt hefur verið litið á að séu eign samfélagsins af stofnfjáreigendum og löggjafanum. Stjórnun, stefnumótun og allar ákvarðanir færast einnig til stjórnar hins sameinaða sjóðs."
Hugnaðist ekki að fara upp í vagninn fyrir sunnan
Þessa sýn ítrekaði Jón í skýrslutöku hjá rannsóknarnefndinni. „Sparisjóður Keflavíkur bauð okkur litlu upp í vagninn, ef við vildum vera með. Þetta var mikið stríð á milli manna. Menn voru alls ekki sammála hvert þeir vildu fara í þessum málum og það eina sem okkur datt í hug þá var að auka stofnféð snarlega þannig að það yrði ekki eins auðvelt að kaupa það, því að við réðum ekkert ferðinni eftir að Fjármálaeftirlitið gaf leyfi á að kaupa stofnfé á yfirverði, þá fór allt á fulla ferð. Það var eina vörnin sem sparisjóðirnir höfðu.
Það vildu allir eignast sparisjóðinn. [...] Það voru ekki bara sparisjóðirnir, það voru bankarnir líka. [...] Við vildum bara hafa alla þræði klára og ráða því hvar sjóðurinn endaði. Það var bara verið á fullu í því hvar við myndum enda ef við réðum ekki lengur ferðinni, ef við neyddumst til að selja sjóðinn. [...]Okkur hugnaðist ekki alveg að fara upp í vagninn fyrir sunnan. Við töldum að þá myndum við missa öll tök á þessu og ekki ráða einu eða neinu.
Sjóðurinn skyldi einu sinni borga góðan arð
Á aðalfundinum voru kynntar breytingar á uppgjöri þar sem farið var að færa eignarhluti sparisjóðsins á gangvirði en þeir voru áður færðir á kaupverði eða hlutdeildarverði. Slíkt skapaði mikinn hagnað á árinu því gagnvirðisbreytingin slagaði upp í 400 milljónir króna.
„Við vissum af því að við áttum þarna dulbúinn hagnað í mörgum félögum, við höfðum aldrei fært þau upp í ársreikningnum og það var svona dálítil pressa frá endurskoðandanum og fleiri sparisjóðum að við færum að gera þetta á raunvirði. Það væri langeðlilegast gagnvart uppgjöri á fyrirtækinu, því að það sýndi ekki rétta stöðu sparisjóðsins. Það var miklu sterkara en tölur sögðu til um. Þetta var auðvitað gert 2007, út af ástandinu, að ná góðum hagnaði inn," sagði Jón við skýrslutökur.
Um þetta voru þó skiptar skoðanir. „Það náttúrulega var ekki hljómgrunnur hjá stofnfjáraðilum að koma með alla þessa peninga inn. Mikið af þessu er eldra fólk sem komið er af vinnumarkaði. Við vorum náttúrulega að biðja það að koma með sitt sparifé þarna inn og okkur fannst bara á þessum tímapunkti og við lögðum bara málin þannig upp að sparisjóðurinn skyldi einu sinni borga góðan arð. Svona í sögu sjóðsins, það var neyð. Og þetta var gulrótin til þess að fá stofnfjáraðila til þess að koma þarna inn, að við myndum borga strax út aftur góðan arð og auðvelda þeim kaupin."
Vorið 2008 var hægt á hugmyndum í hlutafélag. Á stofnfjáreigendafundi var ráðist í að safna auknu stofnfé eftir að eiginfjárhlutfall sjóðsins fór niður fyrir lögbundið lágmark í kjölfar hrunsins. Sjóðurinn gekkst árið 2010 undir fjárhagslega endurskipulagningu og er Bankasýsla ríkisins stærsti hluthafinn í dag með 49,5%.
Mynd: Kristín Hávarðsdóttir