Skip to main content

Öll íbúafjölgun austanlands borin uppi af íbúum með erlent ríkisfang

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. nóv 2024 15:42Uppfært 20. nóv 2024 15:53

Öll íbúafjölgun á Austurlandi og gott betur síðastliðin sex ár er borin uppi af íbúum með erlent ríkisfang. Þeim fjölgað á þessum tíma um sjö hundruð í fjórðungnum þó heildarfjölgun íbúa sé einungis fimm hundruð.

Það merkir að ekki einungis er öll fjölgun á Austurlandi frá árinu 2019 tilkomin vegna íbúa með erlent ríkisfang heldur og dekka erlendir íbúar einnig tvö hundruð manna fækkun Íslendinga yfir sama tímabil.

Þetta meðal þess sem fram kemur í stöðugreiningu landshlutanna sem Byggðastofnun framkvæmir reglulega og birti nýverið niðurstöður sínar fyrir yfirstandandi ár.

Annað forvitnilegt sem kemur fram í greiningu stofnunarinnar að þessu sinni er að aldurssamsetning austanlands er hægt og bítandi að taka breytingum. Fjöldi íbúa í fjórðungnum sem kominn er yfir sextugsaldurinn hefur ekki mælst hærri þau sex ár sem greiningin nær til og fer langleiðina í þrjú þúsund einstaklinga. Sá fjöldi nálægt því að vera fjórðungur allra íbúa sem austanlands kjósa að búa en auknum fjölda eldra fólks fylgir síaukin þörf á þjónustu sveitarfélaga og heilbrigðisstofnanna.