Gekk úr stjórn fyrirtækis eftir að hafa verið neitað um ársreikninginn

sparnor hus khSparisjóðsstjóri Sparisjóðs Norðfjarðar hætti í stjórn bifreiðaverkstæðis sem sjóðurinn átti í eftir að fulltrúar meirihlutaeigenda í stjórninni neituðu að afhenda ársreikning fyrirtækisins. Sparisjóðurinn afskrifaði að lokum átta milljónir króna vegna verkstæðisins.

Lán til bifreiðaverkstæðisins og tveggja verktakafyrirtækja eru sérstaklega tekin til skoðunar í Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna sem kom út á fimmtudag.

Sparisjóðurinn átti 16% hlut í bifreiðaverkstæðinu til ársins 2009 og sat Vilhjálmur G. Pálsson, sparisjóðsstjóri, í stjórn þess fram til haustsins 2008.

Verkstæðið fékk fyrst lán og síðan yfirdrátt, alls 19,5 milljónir, hjá Sparisjóðnum árið 2004 með veðrétti í vörubirgðum og tækjum. Rekstur þess gekk illa og var því hafnað um frekari lán. Haustið 2006 óskaði það síðan eftir 50 milljóna láni með hlutfallsábyrgð eigenda en stjórn sparisjóðsins hafnaði erindinu.

„Ég spyr hvað er eiginlega í gangi?“

„Stærsti eigandi bifreiðaverkstæðisins hafði lánað félaginu talsverða fjármuni og var óskað eftir láni frá sparisjóðnum til að greiða það upp," segir í skýrslunni. Það lán var ekki samþykkt og í tölvupósti til hluthafa lýsti Vilhjálmur áhyggjum sínum af fyrirtækinu.

Í fyrsta lagi dygðu tryggingar ekki fyrir útistandandi lánum, í öðru lagi gengi reksturinn illa og í þriðja lagi virðist hann hugsi yfir skuldin væri til komin. Hann kallaði 50 milljóna skuld við meirihlutaeigandann „með ólíkindum háa" og velti upp hvernig hún hefði á tveimur árum vaxið úr 5,3 milljónum í fimmtíu.

„Ég spyr hvað er eiginlega í gangi. Það er ljóst í mínum huga að [meirihlutaeigandinn] stjórnar auðvitað öllum viðskiptum á milli félaganna og því finnst mér að frumkvæði að tillögum að bættum rekstri og fjármögnun eigi að koma þaðan."

Sparisjóðurinn reyndi án árangurs að selja hlut sinn í verkstæðinu. Haustið 2008 hætti Vilhjálmur í stjórn þegar hann fékk ekki ársreikning ársins 2007 afhentan fyrir hönd sparisjóðsins. Tveir stjórnarmenn höfðu þegar áritað hann í lok febrúar.

Rekstri verkstæðisins var hætt árið 2008 og á hluthafafundi vorið 2009 var lagt til að það yrði lagt niður. Þar var bókað að meirihlutaeigandinn tæki birgðir félagsins, upp á 30 milljónir, upp í skuldir. Við þann gjörning gerði sparisjóðsstjórinn athugasemdir eftir fundinn þar sem sjóðurinn átti veð í birgðunum.

Eftir bréfaskriftir laukum málum þannig að meirihlutaeigandinn keypti birgðir félagsins á átta milljónir sem gengu upp í 16 milljóna skuld við sparisjóðinn sem afskrifaði árið 2010 endanlega átta milljónir vegna skuldbindinga félagsins.

24 milljónir afskrifaðar hjá Eikarsmiðjunni

Í skýrslunni er að auki teknar fyrir lánveitingar til jarðvinnuverktakans MCC ehf. og Eikarsmiðjunnar ehf. til að kanna hvort unnið hafi verið í samræmi við lög og lánareglur sparisjóðsins og hvernig afskriftaþörf þeirra hafi verið metin.

MCC var einn stærsti skuldari sjóðsins frá árinu 2007 en það var tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun árs 2010 og afskrifaði sjóðurinn að lokum ellefu milljónir vegna þess árið 2011. Fram kemur að félaginu hafi verið veitt lán þótt stjórn sjóðsins vissi að tryggingar stæðu „ekki fyllilega" undir skuldbindingum þess.

Byggingarfélagið Eikarsmiðjan var einn stærsti skuldari sparisjóðsins frá árinu 2003 en það stóð í húsbyggingum á Reyðarfirði. Strax árið 2005 voru tíu milljónir færðar í sérstakan afskriftareikning hjá sjóðnum vegna slæmrar stöðu Eikarsmiðjunnar.

Fyrirtækið flutti viðskipti sín yfir til Glitnis árið 2006 og er haft eftir sparisjóðsstjóranum í skýrslunni að hann telji það hafa verið því sparisjóðurinn krafðist aukinna trygginga og heimilaði ekki frekari fyrirgreiðslur.

Félagið var lýst gjaldþrota í febrúar 2007 og þótt ágætlega gengi að selja eignir þess afskrifaði sjóðurinn að lokum 24 milljónir vegna þess.

Mikil dreifing meðal lántakenda

Af lestri skýrslunnar má ráða að Sparisjóður Norðfjarðar var frábrugðin öðrum sparisjóðum að því leiti að stærstu lántakendur voru lágt hlutfall af heildarlánasafninu. Útlán til einstaklinga voru 59% af heildarútlánum í árslok 2008 og voru þeir allir með lán undir 25 milljónum króna.

Útlánasafnið var dreift. Nefndin skoðaði ellefu lánahópa sérstaklega og var hlutfall þess úrtaks af heildarútlánum sjóðsins 14-20,6% af heildarútlánum á árunum 2007-2011.

Mynd: Kristín Hávarðsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar