Hef verið í sjokki síðan ég fékk fyrsta orkureikninginn: Myndar trekk og einangrun húsa

hitamyndir 0027 webBaldvin Harðarson myndaði í haust íbúðarhús í Fljótsdal með hitamyndavél. Hún sýnir hvar varmi tapast úr húsinu. Upplýsingarnar má nota til að einangra og þétta húsin betur og ná fram betri orkunýtingu. Baldvin, sem býr í Færeyjum, segi betri orkunýtingu hafa orðið að áhugamáli og síðar atvinnu eftir að hann fékk fyrsta orkureikninginn þar.

„Ég flutti til Færeyja árið 1988 og fékk sjokk þegar ég sá fyrsta hitareikninginn og hef verið í sjokki síðan," segir Baldvin.

Verkefnið er tilraunaverkefni á vegum Orkuseturs og Fljótsdalshrepps sem miðar að því að geta lækkað kostnað til húshitunar á köldum svæðum.

Baldvin mætir á staðinn með sérstaka myndavél sem greinir hitastig í byggingaefnum og raka auk þess sem greint er hvar trekkur er í gegnum húsið.

Fyrst er þétt í öll göt í húsinu sem eiga að vera til staðar en síðan settur 50 paskala undirþrýstingur á húsið með öflugri viftu og farið af stað með myndavélina. Loftið er þannig sogið inn um rifur og sprungur þannig sést hvar kuldinn kemur inn.

Síðar setur Baldvin saman skýrslu og skilar til húseigandans þannig hann getur greint hvar þarf að þétta. „Það eru dæmi um að menn hafi þurfi að nota 20-50 þúsund krónum í kítti og þéttilista en sparað sér það margfalt með lægri orkureikningi," segir hann.

Baldvin segir mikilli orku sóað hérlendis enda sé hún almennt mun ódýrari hér en erlendis. „Ég nota 6.000 KWH til að hita húsið mitt en hús af sömu stærð hérlendis 30-50.000 KWH. Þannig það fer mikið af varma út í bláinn hér."

Hann telur að menn eigi að byrja á að skoða trekk og einangrunina áður en þeir ráðist í aðra kosti í orkuöflun eða nýtingu. „Menn tala um varmadælur því þær séu svo billegar, en sé ekkert gert við trekk og einangrun fer jafn mikil orka til spillis eftir sem áður."

Baldvin, sem er skipasmiður að mennt, fór fyrir rúmum áratug til Kaupmannahafnar og sótti nám í meðferð hitamynda. Það hefur síðan verið meira og minna hans aðalstarf. „Það er stór markaður í þessu. Fólk hefur mikið að spara."

Íslenskar reglur leyfa trekk upp á allt að 1,0 lítra/sekúndu á fermetra í nýbyggingum. Í Danmörku fá menn ekki að flytja inn í hús fyrr en þau eru orðin nógu þétt. „Orkan er mun dýrari erlendis. Á Íslandi fer mikil orka til spillis."

Baldvin, sem rekur fyrirtækið Hitamyndir, er væntanlegur aftur ásamt færeyskum sérfræðingi til að kynna varmadælur og fylgja eftir könnuninni frá í haust. Fræðslufundur verður í Végarði í Fljótsdal klukkan 16:00 á þriðjudag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar