Sumarstörf á landsbyggðinni: STARF leitar eftir samstarfsaðilum
STARF – vinnumiðlun og ráðgjöf er að kynna verkefni sem ber yfirskriftina Sumarstörf á landsbyggðinni, en það gengur út á að leita eftir samstarfi við ferðaþjónustufyrirtæki vítt og breytt um landið sem hafa í hyggju að ráða til sín sumarstarfsfólk.Með auknum umsvifum í ferðaþjónustu er líklegt að eftirspurn eftir fólki hafi aukist og gengur verkefni STARFs út á það að ná sambandi við þau fyrirtæki sem eru að leita að starfsfólki fyrir sumarvertíðina og fá þau til að ráða til sín fólk sem er á lausu.
STARF er nú þegar með á skrá marga einstaklinga sem hafa áhuga á að vinna við ferðaþjónustu úti á landi og er með þessu átaki að aðstoða þá við að finna störfin.
Einstaklingarnir sem um ræðir hafa sýnt því áhuga að starfa t.a.m. á gistiheimilum, veitingahúsum, við afþreyingarferðaþjónustu, bílaleigur, ferðaskrifstofur, flugþjónustu eða hópbifreiðar. Um er að ræða fjölbreyttan hóp með margvíslegan bakgrunn og eru nokkrir með góða menntun og/eða reynslu af ferðaþjónustu. Þeir geta hafið störf nánast strax og starfað vel inn í haustið eða jafnvel til frambúðar.
Ferðaþjónustuaðilum, sem hafa áhuga á að skoða þennan möguleika við ráðningar, er bent á að skrá starfið sem í boði er á vefsíðu STARFs: www.starfid.is (Atvinnurekandi – Beiðni um starfsmann) og tilgreina að um sumarstarf sé að ræða. Einnig má senda póst á: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og hefur þá atvinnuráðgjafi STARFs samband fljótlega.
STARF – vinnumiðlun og ráðgjöf ehf. er fyrirtæki í eigu Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og var stofnað vorið 2012 til að halda utan um tilraunaverkefni um þjónustu við félagsmenn tiltekinna stéttarfélaga sem eru án atvinnu og í atvinnuleit.
Þjónustan fer fram á fjórum þjónustumiðstöðvum og starfa 14 atvinnuráðgjafar við verkefnið. Þungamiðja þjónustunnar er vinnumiðlun og er markmiðið að koma atvinnuleitendum aftur til starfa.
Nánari upplýsingar um STARF má finna á vefsíðu félagsins: www.starfid.is.