Ósáttir við átak í fækkun villikatta: Á ekki að vera hugmynd í siðuðu samfélagið árið 2014

egilsstadirFélagið Villikettir hefur sent bæjaryfirvöldum á Fljótsdalshéraði mótmæli vegna átaks sveitarfélagsins um fækkun villikatta. Tæplega fjögur hundruð undirskriftir söfnuðust til stuðnings mótmæla Villikattanna.

Í bréfi sem félagið sendi bæjarráði sveitarfélagsins er lýst þeirri skoðun að átakið feli í sér misbeitingu á dýraverndunarlögum. Minnt er á hjálparskyldu og markmiðum um velferð dýra í nýjum lögum.

„Umráðamannalausir kettir eiga að njóta vafans í því efni og njóta sömu réttarstöðu og öðrum dýrum er veitt samkvæmt nýjum lögum," segir í bréfinu sem undirritað er af ritara félagsins.

Félagið hefur hvatt til mannúðlegra aðferða, til dæmis að fanga kettina og gelda þá þannig þeir fjölgi sér ekki fremur en fanga þá til að aflífa. Þannig megi halda stofninum í skefjum „ásamt því að veita þeim möguleika á að lifa sínu lífi samkvæmt sínu eðlilega atferli."

Í bréfinu er því haldið fram að sé enginn eigandi til staðar geti „hver sem er kastað eign sinni á óauðkennt dýr og gerst ábyrgur fyrir umsjá þess." Af hálfu sveitarfélagsins hefur því hins vegar verið svarað að hálfvillt dýr hvorki eigi né megi ganga laus í náttúrunni.

Í bréfinu er óskað eftir að félaginu verði veitt aðild að málinu sem dýraverndunarsamtök. Þau áskilja sér einnig rétt til að leita atbeina yfirvalda, svo sem lögreglu, til að gæta réttarstöðu katta í sveitarfélaginu.

Þá er því haldið fram að ekki hafi verið sýnt fram á að mönnum eða umherfi stafi ógn eða önnur hætta af þeim köttum sem átakið beindist að.

Í bókun bæjarráðs er því svarað til að það sjái ekki ástæðu til að endurskoða verklag við fækkun kattanna enda sé það í samræmi við gildandi lög og reglur um dýravernd. Ráðist var í átakið eftir að sveitarfélaginu bárust kvartanir frá fólki sem taldi sig verða fyrir miklum truflunum og óþrifnaði af köttum sem gangi lausir í þar.

Félagið stóð fyrir undirskriftasöfnun á netinu þar sem 391 ritaði nafn sitt undir áskorun til bæjaryfirvalda á Fljótsdalshéraði. Markmiðið var að safna 1000 undirskriftun.

„Útrýming þessara dýra á ekki einu sinni að vera hugmynd í siðmenntuðu samfélagi eins og nú árið 2014," segir í niðurlagi áskorunarinnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar