Norðfjarðargöng: Veik berglög tefja fyrir vinnu

april24042014 1Vinna Eskifjarðarmegin við ný Norðfjarðargöng hefur gengið hægt síðustu vikur þar sem bergið er veikt. Vonast er til að sá kafli sé senn að baki.

Verktakar hafa glímt við þykk og veik setlög sem hafa krafist mikilla styrkinga. Sprengdar hafa verið mjög stuttar færur, alveg niður í 1,5 – 2 m í hvert skipti.

Nánast öllu yfirborði er lokað jafnóðum með sprautusteypu og síðan eru sett upp bendinet og stálbogar til að bera uppi þekju ganganna.

Að lokum er þetta svo allt hulið með sprautusteypu og þá er hægt að halda áfram í næstu sprengifæru.

Allt bendir þó til að þessar aðstæður vari ekki mikið lengur og að menn geti farið að grafa fullar færur á ný, um 5 m í senn og tvær til þrjár á sólarhring.

Eskifjarðarmegin hafa nú verið grafnir alls 988 m og styttist því í að einn kílómetri hafi verið grafinn frá Eskifirði.

Fannardalsmegin hafa millilög verið að koma að ofan inn í gangaþversniðið, öfugt við það sem gerist Eskifjarðarmegin, vegna jarðlagahallans.

Þar hafa einnig verið talsverðar styrkingar og styttri færur, en ekkert líkt því sem verið hefur í Eskifirði. Nú er unnið í snúningsútskoti, sem auðvitað er gangagröftur þótt göngin sjálf lengist ekki á meðan.

Fannardalsmegin hafa nú verið grafnir um 320 m.

Samtals hafa því verið grafnir 1.308 m frá báðum stöfnum.

Á meðfylgjandi mynd má sjá dæmi um stafninn í Eskifirði, þar sem greinilega sér í margskipt setlög í efri hlutanum og viðamiklar styrkingar þekju og veggja ganganna.

Seinni myndin sýnir þar sem verið er að hlaða í stafn útskots Fannardalsmegin.

Myndir: Guðmundur Þór Björnsson/Hnit hf.

april24042014 2

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar