Uppstokkun framundan hjá Austurbrú? Kominn tími á að meta árangurinn af stofnuninni

austurbru stofnun midarTil stendur að nota næstu mánuði til að meta hvernig til hefur tekist með stofnun Austurbrúar og kortleggja framtíð stofnunarinnar. Hörð átök hafa verið innanhúss síðustu mánuði og framtíð framkvæmdastjórans er í lausu lofti.

Samkvæmt heimildum Austurfréttar hittist stjórn Austurbrúar á löngum fundi á þriðjudag. Þar munu meðal annars hafa verið rædd möguleg starfslok framkvæmdastjórans, Karls Sölva Guðmundssonar.

Í samtali við Austurfrétt sagði Valdimar O. Hermannsson, formaður stjórnarinnar að „engin niðurstaða" hefði fengist á fundinum. Fundað verði aftur á þriðjudag og boðað hefur verið til starfsmannafundar þá um kvöldið.

Á föstudag skrifaði stjórnin bréf til starfsmanna og væntanlegra fulltrúa á aðalfundi 9. maí. Í því segist Valdimar geta „fullvissað" starfsmenn um að engar breytingar séu að fara í gang sem „ógni stöðu" starfsmanna enda verði þeir hafðir með í ráðum „við áframhaldandi þróun og stefnumótun Austurbrúar." Hins vegar sé „heldur ekki í stöðunni að gera ekki neitt."

Megináhersla næstu missera er sögð vera að „stórauka upplýsingaflæði og samráð við starfsfólk stofnunarinnar, ásamt við fulltrúaráð, fagráð og aðra hagsmunaaðila."

„Glímir við alvarlegan vanda"

Austurfrétt hefur undir höndum bréf sem starfsmenn fengu fyrir páska frá framkvæmdaráði og framkvæmdastjórn þar segir hreint út að Austurbrú „glími við alvarlegan vanda." Þar er óskað eftir samvinnu við starfsmenn um að bæta innanhússmenninguna sem sé „ekki góð menning" þar sem síðustu mánuðir hafi farið í „átakapólitík."

Óskað er eftir samvinnu við starfsmenn um að leita lausna á vandanum. Boðaðar voru heimsóknir ráðsins og framkvæmdastjórans á starfsstöðvarnar til að eiga „einlægt og opinskátt samtal". Starfsmenn svöruðu bréfinu og óskuðu eftir einum sameiginlegum starfsmannafundi þannig ekki var farið í heimsóknirnar.

„Ef okkur tekst ekki að koma á friði innan stofnunarinnar óttumst við framhaldið," segir í bréfinu.

Óánægja meðal starfsmanna og sveitarstjórnamanna

Eftir því sem Austurfrétt kemst næst hefur verið umtalsverð óánægja innan Austurbrúar undanfarnar vikur. Ekki virðist fullkomlega ljóst hver rótin er en samskipti hafa verið stirð á milli framkvæmdastjórans og nokkurra starfsmanna.

Staðfest er að einn starfsmaður sagði upp um síðustu mánaðarmót en fullyrt er að fleiri hafi verið farnir að hugsa sinn gang.

„Samskipti á milli starfsmanna og sviða eru mjög góð og innan Austurbrúar ríkir mjög góð vinnumenning," segir Anna Alexandersdóttir, nýkjörinn trúnaðarmaður starfsmanna en vildi ekki tjá sig nánar um málið.

Austurfrétt hefur einnig heimildir fyrir því að einstakir sveitarstjórnarmenn hafi beitt sér í málum Austurbrúar. Þeir séu ósáttir við vinnu framkvæmdastjórans og munu hafa sett þrýsting á að honum yrði sagt upp. Þeir hafa haldið því fram að Austurbrú virki ekki eins og til hafi verið stofnað í upphafi.

Stjórnarkjöri frestað til hausts

Í orðsendingu sem væntanlegir fulltrúar á aðalfundi fengu á föstudag frá stjórn og starfsháttanefnd Austurbrúar er lagt til að kjöri stjórnar og lagabreytingum verði frestað til framhaldsaðalfundar í haust. Þrjár megin ástæður eru nefndar fyrir þessu.

Í fyrsta lagi geti sveitarstjórnarkosningar í lok maí þýtt ákveðna í endurnýjun sveitarstjórnarmanna en þrír af sjö stjórnarmönnum koma þaðan

Í öðru lagi sé kominn tími á að meta hvernig starfsemin hafi gengið og endurskoða stjórnskipulag stofnunarinnar. Næstu fjórir mánuðir verði nýttir til þess og tillögur um breytingar lagðar fyrir framhaldsaðalfundinn í haust. Gert er ráð fyrir að starfsháttanefnd Austurbrúar verði falin umsjón með vinnunni.

Þá hafi stefnumótun stofnunarinnar staðið yfir í rúmt ár en herslumuninn vanti upp á að henni sé lokið. „Æskilegt er að geta lagt fullmótaða stefnu fyrir til afgreiðslu á ársfundi sem yrði þá gerlegt í haust."

Austurbrú er sjálfseignarstofnun stofnuð í maí 2012 á grunni Þekkingarnets Austurlands, Þróunarfélags Austurlands, Markaðsstofu Austurlands og Menningarráðs Austurlands og annast auk þess daglegan rekstur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.

Þorkell Pálsson var fyrsti framkvæmdastjóri stofnunarinnar en hann lét af störfum strax um sumarið. Karl Sölvi kom til starfa fyrir jól 2012.

Frá stofnfundi Austurbrúar. Mynd: GG

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar