57 milljóna tap hjá Fljótsdalshéraði: Ekki enn fundið lausnir við öllum heimsins áhyggjum

baejarskrifstofur egilsstodum 3Rekstrarafkoma sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs á árinu 2013 var neikvæð um 57 milljónir króna þótt gert væri ráð fyrir sjö milljóna tekjuafgangi. Frávikin skýrast fyrst og fremst af breytingum í fjármagnsliðum. Bæjarfulltrúar telja starfsfólk sveitarfélagsins eiga hrós skilið fyrir að halda vel eftir áætlunum.

„Þetta staðfestir þá tilfinningu sem við höfðum þegar við tókum við að róðurinn væri þungur. Það hefur sýnt sig að reksturinn hefur ekki lést nema mjög takmarkað," sagði Sigrún Blöndal, oddviti Héraðslistans í bæjarstjórn þegar ársreikningurinn var tekinn þar til umræðu fyrir skemmstu.

Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir, fjármagnsliði og tekjuskatt var jákvæð um 727 milljónir. Í tilkynningu sem fylgdi ársreikningnum frá sveitarfélaginu segir að það sé einkum þrennt sem skýri tap á rekstrinum þegar tekið hefur verið tillit til afskrifa, fjármagnsliða og tekjuskatts.

Í fyrsta lagi hækka greiðslur fyrir leiguland um 53 milljónir, en samkvæmt reikningsskilareglum skal núvirða framtíðarleigugreiðslur fyrir leiguland og færa til skulda. Lífeyrissjóðsskuldbindingar hækka um 17 milljónir umfram það sem gert var ráð fyrir í áætlun. Þá voru frá- og vatnsveitur í meirihlutaeigu sveitarfélaga undanþegnar skattskyldu í lok síðasta árs. Áhrif þessara breytinga eru 58,9 milljónir sem færðar eru til lækkunar á skatteign og til gjalda í rekstarreikningi.

Fræðslumál eru stærsti málaflokkurinn en til hans renna rúmlega 1,3 milljarður eða 55% skatttekna. Tæplega 350 milljónir fara til félagsþjónustu og rúmar 220 milljónir til íþrótta- og æskulýðsmála.

„Ársreikningurinn sýnir að reksturinn er í þokkalegu jafnvægi en hinar svokölluðu reiknuðu stærðir koma í bakið á okkur. Við tókum við í þröngri stöðu þannig að menn þurftu að taka á málunum og gerðu það. Þær lausnir sem losa okkur frá öllum heimsins áhyggjum eru ekki fundnar," sagði Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar.

Bæjarfulltrúar allra framboða hrósuðu starfsmönnum fyrir þeirra framlag til rekstrarins. „Frávikin stafa af öðru en framúrkeyrslu deilda. Við erum afar heppin með að starfsfólk sveitarfélagins hefur haldið vel á málunum og það er því að þakka að áætlanir standast," sagði Sigrún.

„En þótt við höldum áætlunum þá þyrftum við að afla meiri tekna. Ég held að við verðum á næstu árum að leita leiða til að afla tekna til að standa undir þeim skuldbindingum sem við höfum staðfest," sagði hún.

Karl S. Lauritzson, Sjálfstæðisflokki, ítrekaði þær áhyggjur. „Ég hef áhyggjur af framtíðarfjármálum bæjarins. Tekjuhlaup er ekki spretthlaup og við verðum að skapa fyrirtækjum og öðrum tækifæri til að mynda hér heilbrigða starfsemi."

Bæjarstjórinn, Björn Ingimarsson, benti á að veltufé frá rekstri hefði aukist á kjörtímabilinu. Það hefði verið 230 milljónir árið 2010 en hafi verið 466 milljónir í fyrra.

„Við vorum ekki með veltumyndun sem stóð undir afborgunum lána en nú eigum við ekki í neinum vandræðum með að standa við greiðsluskuldbindingar sveitarfélagsins. Það er gjörbreyting frá því sem var."

Skuldbindingar sveitarfélagsins hækkuðu um 653 milljónir á árinu. Ný lán voru tekin að fjárhæð 701 milljón, þar af 500 milljónir vegna byggingar hjúkrunarheimilis. Þá tók Hitaveita Egilsstaða og Fella 106 milljóna lán til fjárfestinga í mannvirkjum og Dvalarheimili aldraðra 166 milljóna lán til kaupa á íbúðum. Þá yfirtók sveitarfélagið Safnahúsið á Egilsstöðum sem jók skuldir um 212 milljónir. Fjárfestingar námu 848 milljónum árið 2013 og skýrast að mestu af þeim verkefnum sem nefnd voru hér að framan.

Ársreikningurinn verður kynntur á borgarafundi í Egilsstaðaskóla klukkan 20:00 í kvöld.

Mynd: SigAð

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar