Vilhjálmur Jóns: Þingmennirnir gera sér grein fyrir áfallinu sem yrði ef ferjan færi

ssa thingmenn april14 0060 webBæjarstjóri Seyðisfjarðarkaupstaðar segir þingmenn Norðausturkjördæmis gera sér grein fyrir að það yrði áfall fyrir atvinnulíf staðarins ef siglingar ferjunnar Norrænu færðust þaðan.

„Þingmennirnir hafa staðið við bakið á okkar uppbyggingu og gera sér grein fyrir áfallinu sem það yrði fyrir atvinnulífið fari ferjan í aðra höfn.

Þeir undirstrikuðu líka að ekki er vilji til að setja meira opinbert fé í uppbyggingu annarra hafna enda eru hafnarlögin þannig að hafnir af þeirri stærð sem eru í Fjarðabyggð fá ekki fé í slíka uppbyggingu og það kom fram á fundinum að þeir hafa ekki reiknað með því."

Þetta sagði bæjarstjórinn, Vilhjálmur Jónsson, í samtali við Austurfrétt eftir fund bæjarstjórnar Seyðisfjarðar með hluta þingmanna Norðausturkjördæmis og stjórn SSA í síðustu viku. Málefni Norrænu voru þar efst á baugi enda standa yfir viðræður um möguleikana á að hún sigli framvegis til Eskifjarðar.

Vilhjálmur segir þó erindi Seyðfirðinga hafa fyrst og fremst verið beint til stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) en í samþykktum þinga SSA er Seyðisfjarðarhöfn skilgreind sem aðal ferju- og skemmtiferðaskipahöfn Austurlands.

„Það er mikilvægt að allir geri sér grein fyrir því að samþykktir um stærri framfaramál í fjórðungnum hafa byggt á að menn komi sér saman um samþykktir á aðalfundum þótt þeir séu ekki sammála þegar þeir mæta til fundar.

Menn ræða ágreininginn og leysa hann með niðurstöðu sem síðan er kynnt fyrir stjórnvöldum. Þannig hefur samskiptamátinn verið við stjórnvöld í stærri verkefnum sem krefjast mikillar aðkomu ríkisins þótt samþykktirnar séu í sjálfu sér ekki lögbindandi gjörningar."

Vilhjálmur segir enga ákveðna niðurstöðu hafa komið út úr fundinum. „Þetta var ágætur fundur, fín skoðanaskipti og hreinskiptin."

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar