Innbrot hjá Fjarðaáli

alver alcoa april2013Brotist var inn í húsnæði Starfsmannafélags Alcoa-Fjarðaáls á Reyðarfirði í nótt. Þjófarnir höfðu á brott með sér nokkuð af dýrum búnaði.

Tilkynning um innbrotið barst Lögreglunni á Eskifirði í morgun. Starfsmannaaðstaðan sem um ræðir stendur ekki á álverslóðinni heldur er hún í svonefndu Sómahúsi á Reyðarfirði sem áður hýsti útibú Landsbankans.

Ekki fengust frekari upplýsingar hjá embættinu um gang mála eða hvort einhverjir væru grunaðir um verknaðinn, umfram það að rannsóknadeild embættisins færi nú með málið.

Dagmar Ýr Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa-Fjarðaáls, staðfesti í samtali við Austurfrétt að stolið hefði verið sjónvarpi í eigu starfsmannafélagsins og einnig nokkru af ljósmyndabúnaði sem ljósmyndaklúbbur starfsmanna hefði haft til afnota.

Fyrr í dag var sendur út tölvupóstur til starfsmanna fyrirtækisins þar sem tilkynnt var um málið og þeir sem kynnu að búa yfir einhverjum upplýsingum sem hjálpað gætu við rannsóknina hvattir til að setja sig í samband við lögregluna.

Þetta er annað áfallið sem starfsmannafélagið verður fyrir á skömmum tíma, en fyrir páska sagði Austurfrétt frá því að fyrrverandi gjaldkeri félagsins væri grunaður um að draga sér verulegar fjárhæðir úr sjóðum þess.

Starfsfólki Alcoa var í gær send tilkynning þess efnis að um fjárdrátt væri að ræða og næmi upphæðin alls um 8 milljónum króna. Það mál er enn í rannsókn en samkvæmt upplýsingum frá Alcoa hefur viðkomandi starfsmaður verið leystur frá störfum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar