Fallið frá sameiginlegri stjórnun skólanna á Fáskrúðsfirði

forseti faskrudsfjordur 0006 webBæjaryfirvöld í Fjarðabyggð hafa hætt við að setja leik- og grunnskólana á Fáskrúðsfirði undir einn stjórnanda á næsta skólaári. Aðgerðin mætti harðri andstöðu meðal starfsmanna og foreldra í leikskólanum.

Ákvörðunin var tekin á fundi bæjarráðs í gær en ráðið tók þar með undir bókun fræðslu –og frístundanefndar sem fékk málið til umsagnar. Til stóð að nýta árs leyfi leikskólastjórans næsta skólaár til að gera tilraun með fyrirkomulagið.

Fræðslunefndin mælti með að hætt yrði við tilraunina þar sem ekki væri „næg sátt og eindrægni" til staðar meðal starfsfólks og foreldra þrátt fyrir „gott tækifæri til samrekstrar."

Skólastjórnendum er hins vegar falið að fara yfir alla enn ónýtta samlegðarkosti í skólamiðstöðinni á næsta skólaári. Áætlað er að þriggja milljóna „fjárhagslegur ávinningur" yrði á skipulagsbreytingunni.

Áformin mættu hins vegar harðri andstöðu og lýstu starfsmenn leikskólans því yfir að þeir teldu nauðsynlegt, meðal annars í ljósi stærðar skólans, að leikskólastjórinn væri menntaður í leikskólafræðum.

Undir það tók Félag leikskólakennara og Félag stjórnenda leikskóla. Í bréfi sem félögin sendu bæjaryfirvöldum eru þau hvött til að bíða eftir könnun sem verið er að vinna á ávinningi sameiningar skóla.

Þær hafi farið af stað eftir lagabreytingar og efnahagshrunið 2008. „Nú árið 2014 hefur ekkert komið fram sem styður það að fækkun stjórnenda leiði til faglegs eða fjárhagslegs ávinnings," segir í bréfinu.

Í bréfi frá foreldrum leikskólabarna er gagnrýnt að þeim hafi ekki verið kynnt ákvörðunin áður en hún var tekin. Þá telja þeir að breytingarnar komi niður á faglegu starfi skólans.

Kennarar grunnskólans gagnrýndu áformin einnig og sögðu skerta viðverðu skólastjórans, vegna aukinna verkefna „ekki kost."

Þeir segja þjónustu skerðast við íbúa með breytingunni og gagnrýna að sveitarfélagið Fjarðabyggð ætli sér að fara að skerða þjónustu við íbúa á Fáskrúðsfirði, líkt og fyrirtæki og stofnanir hafi gert að undanförnu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar