200 milljóna hagnaður hjá Fljótsdalshéraði

200 milljóna hagnaður varð af rekstri sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs á síðasta ári. Reksturinn er heilt yfir heilbrigður en afborganir af skuldum taka í.

200 milljóna hagnaður varð af rekstri sveitarfélagsins í fyrra sem fyrr segir en afgangurinn fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 838 milljónir. Stærstur hluti hagnaðarins kemur úr A-hluta, sem eru lögboðin verkefni fjármögnuð með skatttekjum.

Rekstrartekjur sveitarfélagsins voru 4,28 milljarðar og rekstrargjöld 3,8 milljarðar. Reksturinn virðist í góðu lagi miðað við að veltufé frá rekstri var 633 milljónir. Tekjurnar jukust um tæpar 300 milljónir milli ára sem skýrist einkum af hærri skatttekjum.

Skuldir eru alls 8,14 milljónir þar af 4,99 í A-hlutanum. Heildarskuldirnar lækkuðu um 177 milljónir milli ára en eru enn yfir lögboðnu hámarki, 150% af tekjum, eða 163%. Samkvæmt áætlunum á viðmiðið að nást árið 2019.

„Ég gagnrýni ekki skuldsetninguna sem ráðist var í á sínum tíma, við búum að henni í dag því við þurfum ekki stórkostlegar fjárfestingar á næstu árum. Íbúum hefur fjölgað en við ráðum við töluverða fjölgun án nýfjárfestinga,“ sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á íbúafundi þar sem ársreikningurinn var kynntur.

Hann bætti við að stefnan væri að fjármagna framkvæmdir með eigin fé en viðurkenndi að í slíkri skuldsetningu þyrftu stundum að grípa til skammtímalána til að halda sjó. Áætlunin sem gerð var um skuldagreiðslur sveitarfélagsins árið 2012 hefði gengið vel eftir þótt hún hefði virst bjartsýn í byrjun.

Stærstur hluti útgjaldanna er til fræðslu- og uppeldismála, 1,7 milljarður eða 52% af skatttekjum. Launagreiðslur námu alls 2,2 milljörðum en hjá sveitarfélaginu starfaði alls 341 starfsmaður í 255 stöðugildum.

Stærstu fjárfestingar síðasta árs voru hjá Hitaveitu Egilsstaða og Fella upp á 122 milljónir. Þá var 58 milljónum varið í gatnaframkvæmdir. Viðgerð á Fellaskóla kostaði 23,5 milljónir en hún varð töluvert umfangsmeiri en ráð var fyrir gert. Fjórða stærsta fjárfestingin var í langþráðum bíl fyrir ferðaþjónustu fatlaðra upp á 15 milljónir.

Þá voru 15 milljónir settar í forhönnun fimleikahúss en viljayfirlýsing um byggingu þess var undirrituð síðasta sumar. Áætlað er að heildarkostnaður við verkið verði 202 milljónir á árunum 2018-2020.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.