Síldarvertíð lokið: Loðnan næst á dagskrá
Skip flestra útgerða hafa nú klárað síldarkvóta sinn. Loðnuvertíðin er næst á dagskrá. Hjá HB Granda á Vopnafirði bera menn sig vel eftir síldarvertíðina.
Samkvæmt tölum Fiskistofu eru tæp 114 þúsund tonn af síld komin á land í austfirskum höfnum á þessu ári. Stærstum hluta aflans, 51 þúsund tonn, hefur verið landað í Neskaupstað, 23 þúsund tonnum á Vopnafirði, 20 þúsund tonnum á Höfn, 9.500 á Eskifirði, tæplega sjö þúsund á Reyðarfirði og tæplega þrjú þúsund á Fáskrúðsfirði.
Á vef Vopnafjarðarhrepps er haft eftir Magnús Þór Róbertssyni, vinnslustjóra HB Granda á staðnum að menn séu sáttir við síldarvertíðina. Fiskurinn hafi verið minni í ár en í fyrra en samt góður.
Loðnuveiðar eru þar næstar á dagskrá. Töluverður munur er á mannaflaþörf, einfaldara vinnsluferli loðnunnar þýðir að um helmingi færri starfsmenn þarf í hana miðað við síldina.
„Ætli við séum ekki með 18 til 20 manns í vinnslunni á móti um 40. Fastir starfsmenn félagsins eru fyrst og fremst í vinnu en þeir sem eru á hliðarlínunni fá einnig töluvert að gera af ýmsum ástæðum, að minnsta kosti í skemmri tíma.“
Skipin fara til loðnuveiða í þessari viku en sækja þarf fiskinn langleiðina til Grænlands.