220 milljóna viðhald á Lagarfljótsbrúnni
Rúmar 200 milljónir eru áætlaðar í viðhald á brúnni yfir Lagarfljót í vetur. Áratugur er enn í endurbyggingu hennar. Unnið verður að fækkun einbreiðra brúa og malarkafla á lykilvegum Austurlands samkvæmt drögum að endurskoðaðri samgönguáætlun.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, kynnti drög að endurskoðaðri samgönguáætlun á fundi í Norræna húsinu í morgun. Í raun er um tvær áætlanir að ræða, annars vegar samgönguáætlun til 2034, hins vegar áætlun til 2024. Tillaga ráðherra verður lögð fyrir Alþingi um miðjan nóvember.
Austurfrétt hefur þegar fjallað um helstu verkefni sem snúa að Austurlandi á næstu misserum, gerð Fjarðarheiðarganga, Axarveg og niðurgreiðslu innanlandsflugs. Ýmislegt fleira leynist í drögunum, sumt nýtt, annað gamalkunnugt.
Lokum Borgarfjarðarvegar seinkað
Á næstu dögum hefjast viðgerðir við brúna yfir Lagarfljót milli Egilsstaða og Fella. Þær kosta 220 milljónir samkvæmt áætluninni. Brúargólfið verður endurnýjað og gert við stöpla. Eins og Austurfrétt hefur áður greint frá var hámarkshraði á brúnni lækkaður í 30 km/klst. í sumar vegna ástands brúarinnar. Mörg dæmi eru um að naglar úr brúargólfinu hafi stungist í dekk bíla á brúnni og eyðilagt þau. Á þriðja tímabili áætlunarinnar, 2030-2034, eru ætlaðir tveir milljarðar til að endurbyggja brúna.
Lokið verður við nýjan veg yfir Vatnsskarð eystra á næsta ári en það kostar 220 milljónir. Endurbætur við kaflann milli Eiða og Laufáss í Hjaltastaðaþinghá hefjast ekki fyrr en árið 2024, seinna en í núgildandi áætlun. Gert er ráð fyrir að þær taki tvö ár og kosti 750 milljónir króna.
Á næsta ári verður 150 milljónum varið til að setja upp stálþil til að varna grjóthruni inn á veginn um Hvalnes- og Þvottárskriður. Um leið fara 280 milljónir til að bæta leiðina milli Gilsár og Arnórsstaða um Arnórsstaðamúla á Jökuldal.
Endurbótum á Suðurfjörðum og nýjum vegi um Lón flýtt
Frekari vegbætur bætast við þegar horft er lengra fram í tímann. Á öðru tímabili, 2025-2029, eru áætlaðar 200 milljónir í lagfæringar á snjóflóðavörnum í Grænafelli, 270 milljónir til að malbika þann kafla sem eftir er í Fellum auk lagfæringar á Völlum. Þá er einnig meginþungi framkvæmdanna við Fjarðarheiðargöng.
Á þriðja tímabilinu, 2030-2034 eru áætlaðir 4,8 milljarðar í veginn frá Reyðarfirði til Breiðdalsvíkur. Helstu kaflarnir þar eru í botni Reyðarfjarðar, Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar og á suðurströnd Fáskrúðsfjarðar. Þeim framkvæmdum er flýtt frá núgilandi áætlun.
Nýr 16 km um Lón þá mun kosta 3,3 milljarða. Hann styttir Hringveginn um 4 km og um leið leggjast af sex einbreiðar brýr. Þá er áætlaðir 1,2 milljarðar í endurbætur á veginum út Jökulsárhlíð sem er malarvegur í dag. Sú framkvæmd er einnig nokkuð fyrr á ferðinni en í gildandi samgönguáætlun.
Í áætluninni má finna stuttan kafla um ýmsar framkvæmdir sem kosta undir milljarð og eru á þriðja tímabilinu. Af Austurlandi eru nefnd dæmi um slík verk ný brú á Búlandsá og breytt lega vegarins við Teigarhorn í Berufirði.
Jarðgöng undir Lónsheiði?
Samhliða áætluninni er lögð fram jarðgangaáætlun. Hún er einföld næstu fimmtán árin, fyrst Fjarðarheiðargöng og svo áfram til Norðfjarðar um Seyðisfjörður. Sigurður Ingi skýrði þó frá nokkrum öðrum göngum sem vilji er til að skoða. Meðal þeirra eru 3-6 km göng undir Lónsheiði til að leysa af hólmi veginn um Hvalnes- og Þvottárskriður.
Þar er settur sá fyrirvari að í stað ganga kunni að vera hægt að gera vegskála. Með þeim yrði byggt yfir veginn í skriðunum, líkt og gert var í Óhlíð milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur áður en þar voru gerð göng. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni stendur til að bera saman ólíka kosti í vegagerðinni á þessum slóðum.
Um hálfur milljarður til hafnaframkvæmda
Í samgönguáætlun til 2024 er gerð grein fyrir helstu hafnarframkvæmdum á næstu árum en ríkið leggur til um hálfan milljarð til þeirra. Stærsta framkvæmdin er endurbygging stálþils við Bjólfsbakka á Seyðisfirði sem byrjað verður á árið 2023. Hún kostar 444 milljónir og greiðir ríkið rúman helming þeirrar upphæðar.
Þá eru áætlaðar framkvæmdir við Angórabryggjuna þar fyrir 124 milljónir árin 2021 og 22 og við Hafskipabryggjuna á Djúpavogi fyrir 186 milljónir árin 2022-2024. Um helmingur fjárins kemur úr ríkissjóði. Þá eru áformaðar framkvæmdir vegna sjóvarna á Eskifirði, Neskaupstað, Fáskrúðsfirði, og Stöðvarfirði árið 2022, í Njarðvík 2023 og á Seyðisfirði 2022-2023. Enn fremur verður rannsökuð hafnaraðstaða á Eskifirði og fyrir fiskeldi á Djúpavogi.