Vélarbilun í Green Freezer: Útgerðin bað um frest til að vinna björgunaráætlun

green freezer bvgÚtgerð fragtskipsins sem er strandað í Fáskrúðsfirði vinnur nú að björgunaráætlun þess. Á meðan bíða björgunaraðilar átekta, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörgu. Ekki er búist við að reynt verði að toga það af strandstað í kvöld.

Það var útgerðin sem bað um frest til að gera björgunaráætlun en á því eiga þær rétt þegar engin hætta er talin á ferðum. Lögreglan og Landhelgisgæslan hafa séð um þau samskipti og veittu frestinn.

Björgunarbáturinn Hafdís frá Fáskrúðsfirði er með taug í skipið og heldur við. Í samtali við Austurfrétt sagðist Grétar Helgi Geirsson, vettvangsstjóri aðgerða, ekki búast við að reynt yrði að toga það af strandstað strax en háflóð er núna klukkan tíu.

Skipið strandaði þegar það var á leið inn á Fáskrúðsfjörð að sækja afurðir. Á meðan það beið eftir hafnsögumanni varð vélarbilun sem olli því að skipið bakkaði upp í fjöruna við Eyri.

Skipið er stöðugt á eyrinni og ekki hefur orðið vart við leka inn í skipið né olíuleka úr því og það er talið lítið skemmt en helst virðast menn hafa áhyggjur af skrúfunni. Það situr á mjúkum sandbakka sunnanmegin í firðinum.

Fjölveiðiskip Samherja, Vilhelm Þorsteinsson, er á strandstað og hefur komið taug i skipið. Þyrla Landhelgisgæslunnar er farin frá Reykjavík og er búist við henni á Fáskrúðsfjörð um klukkan ellefu.

Veður á svæðinu er gott, blankalogn og 10° C hiti.

Green Freezer er hér á landi á vegum Nesskipa en er annars í eigu Green Management í Póllandi. Það hefur verið í siglinum á milli Íslands og Rússlands með fisk.

Mynd: Björgvin Valur Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar