250 milljóna hagnaður hjá Vopnafjarðarhreppi í fyrra

vopnafjordur.jpg

Rúmlega 250 milljóna króna hagnaður varð hjá Vopnafjarðarhreppi í fyrra. Miklu munar þar um hagnað af sölu hlutabréfa í HB Granda. Sá hagnaður nýttist einnig til að greiða niður lán sveitarfélagsins.

 

Þetta kom fram við fyrstu umræðu ársreiknings 2011 á síðasta fundi hreppsnefndar. Þegar tekið hefur verið tillit til niðurstöðu fjármunatekna og gjalda, þar sem 140 milljónir voru umfram gjöld, kemur í ljós að hreppurinn var rekinn með 254,7 milljón króna hagnaði í fyrra.

Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsliði var jákvæð um 110 milljónir króna. Heildartekjur námu 616,7 milljónum en heildarútgjöld, að teknu tilliti til afskrifta, voru 506,3 milljónir.

Hagnaður af sölu hlutabréf í HB Granda skýrir þessa útkomu að miklu leyti. Söluandvirði bréfanna, að frádregnum sölukostnaði, var 476,7 milljónir króna. Stærsti hluti þessara fjármuna var nýttur til að niðurgreiða lán sveitarfélagsins.

Forsvarsmenn Vopnafjarðarhrepps telja þessa ákvörðun til „mikilla hagsbóta“ fyrir rekstur sveitarfélagsins til framtíðar. „Afborganir og vaxtagreiðslur næstu ára munu lækka verulega, sem leiðir til þess að mögulegt er að vinna að margvíslegum góðum verkum í samfélaginu án þess að taka ný lán. Fjármagnskostnaður lækkar til muna og jafnframt lækka árlegar afborganir verulega. Rými sveitarfélagsins til þess að sinna skylduverkefnum sínum eykst því til muna fyrir tilstilli þessarar aðgerðar.“

Greidd voru niður lán fyrir 433 milljónir króna en samkvæmt áætlun átti aðeins að niðurgreiða lán um 96,7 milljónir.

Hlutfall skulda og skuldbindinga sveitarfélagsins af heildartekjum lækkaði úr 185% í 114,5%. Samkvæmt nýjum sveitarstjórnarlögum á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%. Gefinn var 10 ára aðlögunartími. 

Skuldir sveitarfélagsins hafa lækkað úr 1.064 milljónum í 706,4. Samkvæmt þriggja ára áætlun eig a þær að vera komnar niður í 325 milljónir í árslok 2015.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar