Seyðisfjarðargöng strax á eftir Norðfjarðargöngum

seydisfjordur.jpg

Sex þingmenn úr öllum flokkum í Norðausturkjördæmi hafa lagt fram á Alþingi tillögu um að fela innanríkisráðherra að hefja fullnaðarundirbúning að gerð Seyðisfjarðarganga. Stefnt verði að því að rannsóknum og undirbúningi verði lokið í tæka tíð þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir í beinu framhaldi af Norðfjarðargöngum.

Framkvæmdir við Norðfjarðargöng eiga að hefjast á næsta ári og ljúka árið 2016. Sambærilegar þingsályktunartillögur og þessi um Seyðisfjarðargöng hafa áður verið samþykktar en vinnan við göng undir Fjarðarheiði eru hluti af samgönguáætlun 2011-2022.

Í greinargerð með tillögunni sem lögð var fram í vikunni segir að með henni eigi að tryggja að „allur undirbúningur sem er nauðsynlegur til að hægt sé að hefja útboð á Seyðisfjarðargöngum verði örugglega til staðar ekki síðar en þegar Norðfjarðargöngum líkur. 

Það er brýnt að leitað verði allra leiða til að svo megi verða óháð því hvaða aðrar framkvæmdir verður ráðist í samkvæmt samgönguáætlun. Ástandið á Fjarðarheiði er orðið svo alvarlegt að það er ekki forsvaranlegt að bíða lengur með aðgerðir.“

Bent er á að núverandi vegur yfir Fjarðarheiði sé eina vegtenging Seyðfirðinga. Jarðgöng myndu auka öryggi Seyðfirðinga verulega.

„Vetrareinangrun Seyðisfjarðar verður ekki leyst með öðrum hætti en jarðgöngum. Í fjöldamörg ár hefur verið í athugun að leysa samgöngumál á milli Seyðisfjarðar og annarra hluta Austurlands með jarðgöngum. Erfiðleikar við að halda uppi samgöngum yfir Fjarðarheiði hafa sífellt aukist.“

í greinargerðinni segir að mikill hluti undirbúningsvinnunnar við Seyðisfjarðargöng hafi þegar verið unninn. Ný Norðfjarðargöng sé aðeins „fyrsti áfangi stærri framkvæmdar sem hefur það að markmiði að gera Austfirði og Hérað að einu atvinnu- og þjónustusvæði og gjörnýta þannig möguleika þjónustustofnana á Austurlandi. Göng undir Fjarðarheiði yrðu annar áfangi þeirrar framkvæmdar og því rökrétt framhald jarðganga milli Eskifjarðar og Norðfjarðar.“

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.