Hjálmar Bogi sækist eftir kjöri fyrir Framsóknarflokkinn
Hjálmar Bogi Hafliðason, kennari og bæjarfulltrúi í Norðurþingi, býður sig fram í 4. – 5. sæti á lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fyrir komandi þingkosningar.
„Á Íslandi skortir róttæka miðjustefnu, leið skynseminnar þar sem öfgum er hafnað. Uppbygging samfélagsins er sameiginlegt verkefni okkar allra og því berum við öll ábyrgð. Við lærum meira af samtali en tiltali. Allir hafa sínar hugmyndir að lausnum, það er jákvætt,“ segir í framboðsyfirlýsingu Hjálmars Boga.
„Við þurfum að skapa nýja umræðuhefð um uppbygginguna þar sem sjónarmið allra eru virt, einstaklingar fá notið sín og hagur heildarinnar hafður að leiðarljósi. Við þurfum að þora, gera mistök og læra.
Hraðadýrkun samfélagins gerir auknar kröfur um sífellt meiri hraða og snerpu. Við þurfum að hægja á okkur og njóta lífsins án þess að dragast aftur úr. Við þurfum að hugsa öðruvísi, vera sjálf breytingin sem við viljum ná fram.“