Óánægja með breytingar á vaktakerfi: Á ekki að lækka laun starfsmanna

hjukrunarheimili egs 11032015 0001 webStarfsmenn í væntanlegu hjúkrunarheimili á Egilsstöðum eru ósáttir við áform yfirstjórnar Heilbrigðisstofnunar Austurlands um breytingar á vaktafyrirkomulagi. Þeir þurfa að mæta oftar vinnu eða taka næturvaktir til að halda sömu kjörum. Stjórnendur segja sjúklinga setta í forgang í nýja kerfinu.

„Við erum sett upp við vegg. Ef við samþykkjum þetta ekki þá er það sama og uppsögn hjá okkur," segir Ásta Hjaltadóttir, trúnaðarmaður sjúkraliða.

Til stendur að vígja nýja hjúkrunarheimilið þann 20. mars en búist er við að flutt verði inn í það um miðjan apríl.

Í lok febrúar var sjúkraliðum, hjúkrunarfræðingum og aðstoðarfólki í hjúkrun tilkynnt um breytingar á vaktafyrirkomulagi sem taka eiga gildi 1. september. Um helmingur starfsfólksins hefur þegar samþykkt breytingarnar en Austurfrétt hefur heimildir fyrir mikilli óánægju meðal hinna.

Þeir hafa frest út mars til að samþykkja breytingarnar, annars teljast þeir hafa sagt upp.

Vaktirnar breytast þannig að morgun- og kvöldvaktir verða 7,5 tímar en næturvaktir níu tímar. Á það hefur verið bent að starfsmaður í 80% vinnu þurfi að mæta einum degi oftar í mánuði til vinnu til að uppfylla vinnuskyldu sína eða tólf sinnum á ári.

„Okkur finnst þetta það krefjandi vinna og erfið að okkur veiti ekki af þessum frídögum. Það er erfiðra að mæta einum degi meira í mánuði heldur en vinna hálftíma lengur á vakt. Það er slæmt ef þetta safnast upp og starfsmaður lendir í að skulda 1-2 vaktir," segir Ásta.

Í tilkynningu sem Heilbrigðisstofnun Austurlands, sem mun sjá um reksturinn í hjúkrunarheimilinu, segir að vaktabreytingarnar séu gerðar með hag íbúa að leiðarljósi og eigi ekki að lækka laun starfsfólks.

Nauðsynlegt sé að breyta vinnulagi þar sem húsnæðið skiptist í fjórar deildir í stað einnar áður. Áhersla sé á jafna mönnun yfir daginn þannig að íbúar hafi meira frjálsræði í athöfnum dagslegs lífs.

„Við erum stofnun sem á að þjóna skjólstæðingum sínum með sem bestum hætti. Til að það gangi upp þarf að breyta vaktakerfinu," segir Emil Sigurjónsson, starfsmannastjóri HSA.

„Við vitum að þetta er íþyngjandi fyrir starfsfólkið en við náum ekki saman nema gera þessar breytingar. Það er af og frá að við séum fjandsamleg mannauðnum en skjólstæðingarnir eru í öndvegi."

Forsvarsmenn HSA hafna því að um launaskerðingu sé að ræða. Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar staðfestir að þeir sem aðeins taki morgun- og kvöldvaktir þurfi að mæta einu sinni til viðbótar í vinnu í mánuði.

Vaktabreytingarnar séu hins vegar víðtækari og sveigjanleiki sé aukinn. Komið verði á svokölluðu „óskaskýrslukerfi" þannig að starfsmenn geti frekar valið sér vaktir. Þá verði fleiri vaktir í boði á álagstímum. Útreikningar HSA benda því til laun starfsmanns í 80% stöðu á morgun- og kvöldvöktum hækki um 30.000 krónur á vaktrúllunni sem spannar sex vikur.

„Breytingarnar eru óverulegar ef menn velja jafnt af þeim vöktum sem í boði og við viljum að allir taki allar vaktir," segir Nína Hrönn.

Hún hafnar því að breytingarnar séu gerðar í hagræðingarskyni. Íbúum fækki úr 30 í tíu á hverja einingu og þá þurfi ekki lengur tvær vaktir í húsinu við vaktaskipti. Vinnulag við upplýsingagjöf þá einfaldist einnig.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.