Tímabundið samkomulag um þjónustu dýralæknis

hundar des12Matvælastofnun hefur gert tímabundið samkomulag við Hjört Magnason hjá Dýralæknastofunni á Egilsstöðum um að sinna almennri dýralæknaþjónustu á Mið-Austurlandi á meðan leitað er varanlegra lausna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni. Samhliða var gerður samningur við dýralækni á Húsavík um að sinna Þingeyjarsýslum.

Þjónustusamningar sem voru í gildi runnu út í fyrra og ekki náðust samningar um endurnýjun þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar.

Frá Ljósavatnsskarði í vestri að Fáskrúðsfirði í suðri er í reglugerð aðeins gert ráð fyrir stuðningi við tvo dýralækna, en á þessu landssvæði störfuðu til margra ára fleiri dýralæknar og þá í þjónustu hjá hinu opinbera.

Í tilkynningu MAST segir að of lítið sé að styðja aðeins tvo dýralækna á landssvæði sem nái til fimmtungs landsins. Því var óskað eftir því við atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið að breyta reglugerðinni og fjölda stöðugildum um eitt.

Fyrirkomulag dýralæknaþjónustunnar hefur verið harðlega gagnrýnt af bændum og sveitarstjórnarmönnum á svæðinu en aðgengi að dýralækni var sérstaklega erfitt um jól og áramót.

Í tilkynningu MAST segir að nauðsynlegt sé að bregðast við því ástandi sem verið hafi þar sem dýraeigendur hafi ekki getað komið dýrum sínum til hjálpar. Þau hafi liðið fyrir sem sé andstætt nýjum lögum um velferð dýra.

Auk þeirra tveggja dýralækna sem nýgert samkomulag nær til þá hafði stofnunin áður gert samning við dýralækni búsettan í Vopnafirði, sem sinnir svæðinu frá Hófaskarði í vestri að Hellisheiði eystri í suðri.

Stofnunin gerir ráð fyrir að tímabundnir samningar verði framlengdir fram á sumar ef engin breyting verður á komandi mánuðum á reglum um þjónustusvæði og þar með þóknun til dýralækna. Málið verður áfram til skoðunar því tryggja þarf fjármögnun til lengri tíma.

„Áfram verður að leita viðunandi og varanlegra lausna,“ segir í niðurlagi tilkynningarinnar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.