Nokkuð um útköll hjá austfirskum björgunarsveitum: Talsverðir vatnavextir

seydisfjordur april2014 0006 webAustfirskar björgunarsveitir voru kallaðar út í ýmis verkefni í veðurofsanum í morgun þótt rólegra væri hjá þeim en sveitum annars staðar á landinu. Rafmagnslína gaf sig í Breiðdal seinni partinn eftir vatnavexti.

Mestar voru annirnar hjá Ísólfi á Seyðisfirði samkvæmt yfirliti frá Landsbjörg. Þar sprakk gróðurhús, þak var að lyftast á skrifstofuhúsi, byrgja þurfti glugga í áhaldahúsi bæjarins og koma þurfti í veg fyrir að kofi á hesthúsasvæðinu fyki.

Á Vopnafirði þurfti að halda aftur af einum skjólvegg auk annarra smáverkefna og á Norðfirði var Gerpir kallaður út til að byrgja brotinn glugga.

Veðrið einkenndist af hvassviðri og rigningu en einnig hlýindum sem leiddu til töluverðra leysinga. Þá bættist við sólbráð í dag. Á Fagradal voru vegagerðarmenn að störfum eftir hádegið við að moka frá veginum til að vatn rynni ekki inn á hann. Eyvindaráin var kolmórauð og klakastífla í henni rétt neðan við Þuríðarstaði.

Víða hækkaði skarpt í ám og á hádegi var flóð í Geithellnaá í Álftafirði þar sem rennsli var ríflega 295 m3/s. Áin 35 faldaðist í rennsli frá kvöldmat í gær til hádegis í dag en hefur síðan rénað.

Svipaða sögu er að segja af Fossá í Berufirði en þar tuttugu faldaðist rennslið. Í Lagarfljóti við Egilsstaði hefur vatnshæðin hækkað um 20 sm í dag.

Þá flæddi Breiðdalsá yfir bakka sína við bæinn Kleif og hreif með sér rafmagnsstaur með þeim afleiðingum að rafmagnslaust varð í Breiðdal eftir kaffi. Rafmagn komst á fyrir kvöldmat eftir bráðabirgðaviðgerð en beðið er með lokaviðgerð þar til sjatnar í ánni.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.