Brynhildur orðuð við fyrsta sætið hjá Bjartri framtíð: Stefanía skoðar stöðuna

bjort_framtid.png

Brynhildur Pétursdóttir, ritstjóri Neytendablaðsins, er samkvæmt heimildum Austurfréttar líkleg til að verða í efsta sæti lista Bjartrar framtíðar í Norðausturkjördæmi í komandi þingkosningar. Stefanía Kristinsdóttir skoðar stöðuna en Elvar Jónsson segist ekki á leið í framboð.

„Já, ég hef verið orðuð við þetta framboð og er alvarlega að hugleiða málið,“ sagði Brynhildur í samtali við Austurfrétt. Samkvæmt heimildum Austurfréttar er líklegt að hún verði í efsta sæti listans. Um það segir Brynhildur enn allt óákveðið.

„Það er ekki enn búið að raða á lista og nefndin sem ákveður uppröðun lista hefur ekki samþykkt neitt ennþá. Þannig að það gæti vel farið svo að ég leiði listann en það er ekki komið alveg á hreint.“

Stefanía G. Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri á Egilsstöðum er meðal þeirra sem orðuð hafa verið við framboðið. Hún sagði sig nýverið úr Samfylkingunni en hún var formaður Samfylkingarinnar á Fljótsdalshéraði. „Ég hef engu lofað né verið lofað,“ segir Stefanía.

Elvar Jónsson, kennari og bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð sem setið hefur í stjórn Bjartrar framtíðar ætlar ekki að taka þátt í slagnum í vor. „Ég er ekki að fara í framboð.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.