Egilsstaðabýlið: Slátra þarf öllum jákvæðum gripum

matvælastofnun hótel héraðSlátra þarf þeim nautgripum sem greinst hafa með mótefni gegn BHV-1 herpesveirunni á Egilsstaðabýlinu á Völlum. Þar hafa 33 af 69 kúm greinst með mótefnið. Yfirdýralæknir segir mikilvægt að geta sýnt fram á að Ísland sé laust við sjúkdóma á borð við þá sem veiran veldur, sérstaklega vegna samningaviðræðnanna við Evrópusambandið.

 

„Jákvæðum gripum verður fargað og það verður ekki farið í bólusetningu,“ sagði Þorsteinn Ólafsson, sérgreinalæknir nautgripa hjá Matvælastofnun á opnum fundi sem haldinn var um veirusýkinguna á kúabúinu á Egilsstöðum í dag. 

Möguleikinn virðist standa á milli þess að lóga öllum á gripum á bænum eða aðeins þeim sem greinast með mótefnið. Það gæti tekið 1-2 ár að hreinsa búið með þeirri aðferð. Á fundinum var reyndar bent á að í Þýskalandi er viðhöfð sú aðferð að jákvæðum gripum sé lógað. Síðan séu tekin blóðsýni að mánuði liðnum og annað eftir annan mánuð. Séu þau bæði neikvæð er búið úrskurðað laust við sjúkdóminn.

 

Hvað gerðist 2007? 

Af 69 kúm sem einhvern tíman hafa borið á búinu greindust 33 með jákvæða mótefnasvörun. Þar af voru allar kýrnar sem fæddar eru 2007 eða fyrr, 4 af 16 fæddar 2008, tvær af 20 fæddar 2009 og ein af níu fæddar 2009. „Þetta smitast ekki endilega frá móður til fósturs.“

„Þetta segir okkur að jákvæðu kýrnar smita ekki mikið frá sér og veiran er því ekki bráðsmitandi. Danskir sérfræðingar segja okkur að líklega hafi eitthvað gerst 2007/8. Það er samt ekkert augljóst, á búinu hafa aldrei verið neinar fársjúkar kýr,“ sagði Þorsteinn.

 

Erlendir sérfræðingar liðlegir við Íslendinga 

Framundan eru nánari rannsóknir. Mjólkurtanksýni hafa verið tekin á öllum bæjum í Austurlandsumdæmi og voru þau send til Danmerkur í dag. Von er á niðurstöðum úr þeim um miðja næstu viku. Slík sýni úr öðrum búum á landinu verða send erlendis eftir helgi en lengri tíma tekur að vinna úr þeim. Búið er að taka stroksýni úr kúnum á Egilsstöðum sem send verða til Svíþjóðar. Vikur líða þar til niðurstöður þeirra verða ljósar.

Halldór sagðist þakklátur erlendu rannsóknarstofunum fyrir vilja þeirra til að hraða afgreiðslu íslensku sýnanna. „Menn skilja að þetta er alvarlegt dæmi á Íslandi.“

Með stroksýnunum vonast menn til að hægt verði að einangra veiruna og rekja ætterni hennar. Dæmi um eins og þetta á Egilsstöðum, þar sem veiran birtist utan úr buskanum án þess að kýrnar sýni nokkur ummerki eru þekkt frá nágrannalöndum. Slíkt gerðist í Noregi árið 1992 og Danmörku 2004. Í bæði skiptin var öllum gripum á búunum lógað.

Mikilvægt að sýna fram á hreinan stofn í ESB viðræðum 

Það er MAST sem gerir tillögu til ráðherra um aðgerðir sem síðar tekur endanlega ákvörðun. Ýmsa hagsmuni verði þar að meta.

„Það er mikilvægt að landið nái aftur sinni fyrri stöðu sem laust við sjúkdóminn, til dæmis vegna samningaviðræðnanna við Evrópusambandið ef við ætlum að standa á því að við þolum ekki frjálsan innflutning dýra,“ sagði Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir á fundinum.

Gunnar Jónsson, bóndi á Egilsstöðum, taldi þá hagsmuni mikla. „Ég held að það verði aldrei fulltalið hvers virði það er ef við getum sagt að okkar stofn sé laus við svona sjúkdóma. Þar er um hagsmuni bænda í heild að tefla.“

 

Allar smitleiðir fjarlægar 

Enn er óljóst hvernig veiran hefur borist inn á búið. Hann smitast fyrst og fremst við snertingu smitaðra gripa eða flutning á frystu sæði. Flutningur bæði lifandi dýra og sæðis til Íslands er bannaður og áratugir er síðan síðast var staðið í kynbótum á íslenska kyninu.

Þótt Gunnar Jónsson sé þekktur áhugamaður um framþróun íslenska stofnsins sagði Halldór að enginn grunur væri um að slíkur gjörningur væri að baki sýkingunni. Slíkt væri „ekki vert að ræða.“ Velt var upp möguleikanum á að veiran hefði borist með ferðamönnum eða skordýrum, til dæmis skógarmítli. Möguleikarnir séu „fjarlægir“

 

Þrír dagar frá því að niðurstöðurnar bárust þar til gripið var til nokkurra aðgerða 

Sýni á Egilsstaðabýlinu voru tekin við reglubundið eftirlit MAST þar sem nautagripabú eru valin með slembiúrtaki. Niðurstöðurnar frá rannsóknarstofunni í Danmörku bárust 17. september í Tilraunastöðina í meinafræði að Keldum. Þremur dögum síðar voru þær á borði dýralækna MAST.

Sýnið var endanlega staðfest 3. október og þá var ráðuneyti landbúnaðarmála gert viðvart. Tveimur dögum síðar, eftir að frekari formsatriðum var fullnægt, var gefin út opinber yfirlýsing um málið.

Ljóst er að þarna komu tíðindi sem menn áttu ekki von á, það sem Þorsteinn kallaði „afbrigðilega leið“ til að uppgötva sjúkdóminn. Hefðu dýrin sýnt einkenni og dýralæknir verið kallaður á búið hefðu viðbrögðin verið mjög snögg og búið einangrað.

Halldór viðurkenndi að í þessu tilfelli hefðu viðbrögðin mátt vera sneggri þar sem þrír virkir dagar liðu frá því að niðurstöðurnar komu í Keldur og þar til dýralæknar MAST voru farnir að vinna með þær. „Við þurfum að bæta boðleiðirnar og setja undir ákveðna leka. Við verðum að vera klárir á að bjöllurnar virki.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.