Lögregluþjónninn: „Hefur reynt mjög á okkar fjölskyldulíf“

logreglanLögregluþjónn, sem íbúi á Eskifirði sakar um einelti og ósæmilega hegðun, segir málið hafa reynt mjög á fjölskyldu sína. Íbúinn var ákærður fyrir meiðyrði í kjölfar opinnar færslu sem hann birti á Facebook í maí 2013.

„Ég tók þessu mjög illa og fjölskylda mín líka. Þetta náttúrulega vegur að starfsheiðri mínum sem lögreglumaður. Kona mín átti erfiða daga eftir þetta. Í hvert skipti sem þetta hefur komið upp hefur það reynt mjög á okkar fjölskyldulíf,“ sagði Þór Þórðarson, lögregluþjónn á Eskifirði í Héraðsdómi Austurlands í gær þegar aðalmeðferð málsins fór fram.

Emil K. Thorarensen er þar ákærður fyrir meiðyrði í garð Þórs en í færslunni sakaði hann Þór meðal annars um einelti gagnvart íbúum í starfi sínu og ósæmilega hegðun gagnvart unglingsstúlkum.

Fjarstæðukenndar ásakanir um einelti

Þór varð fyrst kunnugt um ummæli Emils um sig þegar honum var gert viðvart um þau með símtali. Þá fór hann inn á Facebook-síðu Emils og sá að þar var verið að „níða af honum skóinn.“

Þór hafnaði alfarið ásökunum Emils og sonar hans um einelti. „Ég skil þetta sem svo að hann sé að bera það á mig að leggja samborgara í einelti, með því að hafa ítrekað óeðlileg afskipti af þeim,“ sagði Þór og bætti því við að það væri „fjarstæðukennt.“

Þór sagði ennfremur að hann hafi alls ekki oft þurft að hafa afskipti af Emil eldri vegna starfa sinna sem lögreglumaður á Eskifirði, þó að það hafi vissulega komið fyrir. Ekkert í þeirra samskiptum hafi þó verið með þeim hætti að Emil hefði tilefni til að ráðast á persónu hans á opinberum vettvangi.

Emil hefur aldrei iðrast

Þór segir að Emil hafi aldrei iðrast ummæla sinna. Emil hafi meira að segja haldið áfram að vera í sambandi við Þór og beðið hann um persónulegan greiða skömmu eftir að skrifin birtust á Facebook.

Þá hafi hann beðið Þór um aðstoð við að innheimta einhverja muni sem sonur hans átti hjá leigusala í Reykjavík. Emil á þá að hafa sagt við Þór að staða hans sem lögregluþjóns gæti haft ákveðið vægi í samskiptum við þennan tiltekna leigusala.

Nokkuð virtist fjúka í Þór er hann rifjaði þetta upp og sakaði hann Emil um siðleysi. „Það er svo siðlaust og ómerkilegt að gera þetta, að það er með hreinum ólíkindum.“

Málið hefur haft margvísleg óþægindi í för með sér

Þór sagði að honum hafi brugðið verulega við þegar hann sá skrif Emils um að Þór hafi sent táningum og unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð. „Hann er að ýja að því að ég sé að senda unglingum kynferðisleg skilaboð. Þetta er með ólíkindum, að maðurinn skuli leyfa sér að skrifa þetta á opinberum vettvangi.“

Hann sagði Facebook-færsluna hafa haft margvísleg óþægindi í för með sér. Málið fór alls ekki lágt á sínum tíma að sögn Þórs og þá allra síst í samfélaginu á Eskifirði. Einnig var fjallað um það í fjölmiðlum og myndir birtust af Þór og konu hans á síðum dagblaða.

„Myndir hafa birst í fjölmiðlum af heimili okkar. Tengdaforeldrar mínir vissu ekki sitt rjúkandi ráð,“ sagði Þór og bætti við að hann hefði þurft að útskýra málið fyrir þeim og verja æru sína gagnvart öðrum.

Meðal annars þurfti hann að útskýra mál sitt fyrir yfirmönnum sínum í lögreglunni. Þegar Þór var spurður af sækjanda hvort hann teldi að þetta mál hefði aftrað honum framgöngu í starfi kvaðst hann ekki geta vitað það, en þó hefði hann nýlega sótt um stöðu innan lögreglunnar og ekki fengið.

Margir tilbúnir að níða skóinn af lögreglumönnum í litlum samfélögum

Þór segir það svo að margir séu tilbúnir að níða skóinn af lögreglumönnum og þá ekki síst í litlum samfélögum eins og á Eskifirði. Hann segir störf lögreglumanna þá verða persónuleg og að það sé alltaf „…persónan Þór að skipa fólkinu, en ekki lögreglan.“

Jónas Wilhelmsson Jensen, yfirlögregluþjónn á Eskifirði tók í sama streng er hann mætti fyrir dóm sem vitni. Hann sagði lögreglumenn sem sýni frumkvæði í starfi, séu duglegir að upplýsa mál og hafa afskipti, verði á milli tannanna á fólki með allskonar kjaftasögum. „Ég hef heyrt allskyns kjaftasögur, um Þór Þórðarson, sjálfan mig, son minn, mömmu mína og svo framvegis,“ sagði Jónas og bætti við að fleiri lögregluþjónar hefðu verið sakaðir um einelti.

Hann sagði að engar formlegar kvartanir hefðu borist gegn Þór á Eskifirði og hann aldrei fengið áminningu í starfi.

Hefur fundið fyrir stuðningi frá samfélaginu

Þór sagði að þrátt fyrir að málið hafi valdið honum óþægindum og sé jafnvel enn á milli tanna fólks, hafi hann upplifað stuðning frá nærsamfélaginu. Hann sagði að obbinn af fólki sem hefði rætt málið við sig væri á þeirri skoðun að þarna hefði þessi ágæti maður, Emil K. Thorarensen, gleymt sér í ölæði og látið það bitna á Þór og persónu hans.

Verjandi reyndi að fá Þór vikið úr salnum eftir að hann bar vitni á þeim forsendum að vitni skuli jafnan prófað án þess að annað vitni sé til staðar. Sækjandi mótmælti þar sem Þór væri búinn að gefa vitnisburð auk þess sem brotaþoli ætti rétt á að sitja í opnu þinghaldi. Dómari féllst ekki á það og gengu bókanir á víxl eftir að verjandinn kveðst vilja kæra það til Hæstaréttar.

Tengd frétt: Sakaði lögreglumann um að senda unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð og leggja íbúa í einelti

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar