Kjarasamningar á álverslóð felldir hjá Brammer og Securitas
Starfsmenn Brammer og Securitas á álverslóðinni í Reyðarfirði hafa hafnað kjarasamningum við undirverktaka á álverslóð. Samningarnir voru samþykktir hjá Launafli, VHE, Fjarðaþrifum, Lostæti, Sjónarás og Eimskip.Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags, segir að niðurstöðurnar þýði að áfram þurfi að ræða við fyrirtækin tvö þar sem samningarnir voru felldir.
Fyrirtækjasamningur sé í gildi við Brammer og hann gildi áfram þar til nýr verður gerður. Slíkur samningur sé ekki fyrir hendi hjá Securitas en hann þurfi að gera því fyrirtækið sé skuldbundið til þess samkvæmt nýlegu samkomulagi AFLs, Fjarðaáls og Samtaka atvinnulífsins.
Hjá Brammer sögðu 60% nei við samningunum og 70% hjá Securitas. Annars staðar var sagt já með 68-100%. Kjörsókn var á bilinu 23-80%.
Þá hefur verkfalli verslunarmanna í AFLi sem hefjast átti á fimmtudag verið frestað en samningar virðast hafa tekist við verslunarmenn.
Verkafólk í AFLi leggur hins vegar niður vinnu á fimmtudag og föstudag. Ótímabundið verkfall hefst svo 6. júní hafi ekki samist fyrir þann tíma.