Grafa á kaf: 26 tonna járnklumpur strandaður úti í Jökulsá í Fljótsdal
Beltakrafa, sem stakkst á kaf í Jökulsá í Fljótsdal skömmu fyrir hádegi í dag var dregin upp á bakka um kvöldmatarleytið í kvöld. Ekki er vitað hversu miklar skemmdir urðu á vélinni.
Grafan var að grafa í eyri í Jökulsánni neðan við Víðivallaskóg. Gröfustjórinn virðist hafa farið út í vitlausa eyri. Hann ætlaði að fara yfir kvísl í ánni og yfir á hina eyrina. Vatnið var hins vegar dýpra en hann hugði og fór vélin það djúpt að vatn komst inn í mótorinn og vélin drap á sér.
Björgunarsveitin Hérað var kölluð út um klukkan hálf tólf í morgun. Björgunarsveitarmenn voru komnir á staðinn um klukkutíma síðar og náðu þá gröfustjóranum í land. Hann var farinn að kólna, enda ekki klæddur til útiveru, er bar sig vel og beið hinn rólegasti eftir hjálpinni ofan á vélinni. Honum var komið í land á gúmbát.
Fyrst reyndist önnur grafa að komast að þeirri strönduðu en það gekk ekki. Úr varð úr að fyrst var mokaður garður sem minnkaði rennslið í kvíslinni. Seinni grafan mokaði sig síðan að þeirri strönduðu, krækti í skófluna og dró hana af stað.
Þá var hægt að koma keðju í beltavagn gröfunnar í vatninu og á land þar sem tvær aðrar gröfur drógu hana upp.
Ekki er ljóst hversu mikið grafan skemmdist. Til þess þarf að þurrka hana en líklegt er að mótorinn hafi skemmst.