Mannauður sem þurfti ekki að tapast en kaus að tapa sér
Gunnar Jónsson, formaður bæjarráðs Fljótsdalshéraðs, segist á tímabili ekki hafa verið viss um hverjir stjórnuðu sveitarfélaginu, bæjarfulltrúar eða forsvarsmenn leikskóla sveitarfélagsins. Miklar deilur urðu síðasta skólavetur um sameiningar leikskólanna á Fljótsdalshéraði.
„Ég var ekki með á hreinu hverjir ætluðu að stjórna þessu sveitarfélagi. Á tímabili vissi ég ekki hvort leikskólinn væri fyrir börnin eða starfsfólkið,“ sagði Gunnar á opnum fundi um fjárhagsáætlun sveitarfélagsins í síðustu viku.
Á fundinum kom gagnrýni á sameiningu skólanna Tjarnarlands og Skógarlanda sem gekk í gegn í sumar. Starfsfólk taldi samráð skorta í gegnum sameiningarferlið og lítið tillit tekið til hugmynda sem það setti fram um aðrar sparnaðarleiðir.
Báðir leikskólastjórarnir hurfu á braut ásamt fjórum öðrum starfsmönnum í kjölfar breytinganna. Á fundinum var bent á að eftirsjá væri af mannauðinum, á starfsfólkinu byggði sterkur leikskóli.
„Þetta er mannauður sem þurfti ekki að tapast en hann kaus að tapa sér,“ sagði Gunnar og bætti við að „farsi“ hefði farið af stað í kringum ferlið síðasta vetur. „Ég er mjög ósáttur við hvernig sumt af þessu fólki vann gegn sameiningunni.“
„Ekki okkar hugsun að eyðileggja“
Sigrún Blöndal, Héraðslistanum, sagði bæjarfulltrúa talið að með sameiningunni væri hægt að bæta faglegt starf leikskólanna. „Það var alls ekki hugsun okkar að eyðileggja.“ Hún benti á að fræðslumál væri stærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins. Þau væru því í stöðugri endurskoðun.
Nýr leikskólastjóri var ráðinn yfir sameinaðan skóla, Tjarnarskóg. Leikskólastarf er enn í gangi á báðum stöðunum en starfsemin hefur verið endurskipulögð. Ráðgert er að 5-7 milljónir sparist árlega af sameiningunni frá og með árinu 2014 þegar breytingarnar verða fyllilega um garð gengnar.
Ekkert ákveðið um aðrar sameiningar
Bæjarfulltrúar á fundinum ítrekuðu að ekki hefði verið tekin neinar frekari ákvarðanir um sameiningar leikskóla, eða annarra skóla á svæðinu. „Við notum veturinn til að fara yfir þetta,“ sagði Gunnar.
Einnig var rætt um Hallormsstaðarskóla, sem Fljótsdalshérað rekur ásamt nágrönnum sínum í Fljótsdal. Gunnar viðurkenndi að nemendaþróun þar væri sannarlega ekki glæsileg og útlit fyrir enn frekari fækkun á næstu árum. Rekstur skólans á þó að vera tryggður með samningi sveitarfélaganna til ársins 2019.