Viðræður við erlendan aðila um flug um Egilsstaðaflugvöll 2016

thota egs 14042015 0007 webMöguleiki er að millilandaflug hefjist um Egilsstaðaflugvöll á næsta ári. Viðræður hafa staðið síðustu mánuði við mögulegan samstarfsaðila erlendis frá. Nú er unnið að því að tryggja að innviðir séu til taks ef af fluginu verður.

Þetta staðfestir María Hjálmarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Austurbrú, í samtali við Austurfrétt.

„Austurbrú er í viðræðum við ákveðinn aðila erlendis sem hefur áhuga á að koma á millilandaflugi á Egilsstaði.

Það er ekki hægt að nefna nöfn að svo stöddu en þetta er stórt tækifæri með flottum samstarfsaðila sem sér tækifæri í að gera Austurland að flottum áfangastað.

Nú er verið að vinna í ákveðnum málum sem snerta tryggingu og bakland, sem og staðfestingu á samstarfsaðilum, og verður ákvörðun vonandi tekin fljótlega um hvort það verði af millilandaflugi árið 2016.

Ef sú verður raunin er þetta frábært tækifæri fyrir Austurland hvað varðar uppbyggingu á ferðaþjónustu og aukin lífsgæði fyrir heimamanninn.“

Í vor var skipaður starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins til að kanna möguleika á millilandaflugi um Egilsstaði og Akureyri. Hópurinn hefur síðan fundað einu sinni.

Í hópnum sitja fulltrúar frá ISAVIA, innanríkisráðuneytinu auk tveggja fulltrúa úr hvorum landsfjórðungi. María og Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, sitja í hópnum fyrir hönd Austurlands.

„Ég tel mjög jákvætt að þessi hópur hafi verið skipaður. Við Björn Ingimarsson, bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði, sitjum í þessum starfshópi fyrir hönd Austurlands. Tilvist starfshópsins segir okkur að stjórnvöldum er alvara þegar þau segjast vilja fjölga gáttum inn í landið.

Ég er ánægð með stöðu verkefnisins á þessari stundu og vonandi með stofnun starfshópsins fæst það bakland sem þarf til að þessi tækifæri verði að veruleika.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar