Djúpivogur: Þróun miðbæjarins taki mið af fólki, eðli þess og þörfum
Tæplega þrjátíu manns mættu á íbúafund um skipulagsmál á Djúpavogi á fimmtudaginn í síðustu viku. Þar voru kynnt þau þemu sem hafa verið höfð að leiðarljósi við gerð nýs deiliskipulags fyrir miðbæjarsvæðið á Djúpavogi og íbúum var gefinn kostur á að taka þátt í hugmyndastarfinu með því að greina veikleika, styrkleika og tækifæri á hverju svæði í miðbænum.Páll Líndal, umhverfissálfræðingur, fór yfir helstu áhersluatriðin í þeirri vinnu sem nú er í gangi varðandi endurskipulagningu miðbæjarins. Djúpavogshreppur er aðili að Cittaslow-verkefninu, sem er alþjóðlegt verkefni sem leggur áherslu á að við uppbyggingu í þéttbýli skuli skapa sjálfbært og mannvænt umhverfi. Stuðla skal að fjölbreytilegum ferðamáta, tengingu við náttúru auk þess sem sýna skal sögu og menningarminjum virðingu.
Megináherslur í nýju skipulagi verða þær að þróun umhverfis taki mið af fólki, eðli þess og þörfum. Að sögn Páls hefur þéttbýlisþróun á 20. öld um allan heim litið framhjá mannlegum þörfum og umhverfið hefur verið byggt upp með bílanotkun í huga, sem hefur óhjákvæmilega leitt til verri lífsgæða fyrir fólk.
Páll sagði mikilvægt að fjölbreytt starfsemi fái að þrífast í miðbæjum og verkefnið sem lægi fyrir væri að skapa sterka heild í miðbænum á Djúpavogi, þar sem ólíkir þættir tengist með rökréttum hætti.
Íbúar fengu blöð og skrifuðu niður þá styrkleika, veikleika og tækifæri sem hvert svæði í miðbænum hefði upp á að bjóða. Við hugmyndavinnuna voru íbúar beðnir um að hafa þau þemu sem hafa verið notuð við vinnslu deiliskipulagsins í huga. Sköpuðust fjörugar umræður á borðunum og ljóst að íbúar hafa ýmislegt til málanna að leggja.
Andrés Skúlason, oddviti hreppsins, sýndi myndskeið af miðbæjarsvæðinu í lok fundar. Myndbandið tók hann úr lofti með myndavélardróna á dögunum, þegar fjöldi ferðafólks var í miðbænum. Myndbandið sýndi vel ringulreiðina sem skapast í miðbænum þegar fjöldi gangandi vegfarenda er á ferð. Fólk gengur úti á miðri götu, þvers og kruss og stórar ferðamannarútur keyrðu um göturnar við hlið fólks.
Fundargestir voru sammála um að þetta væri ekki sérlega mannvænt umhverfi og gaman verður að fylgjast með því hvernig tillögur að nýju deiliskipulagi fyrir miðbæjarsvæðið á Djúpavogi munu líta út. Stefnt er að því að þær verði kynntar á íbúafundi í haust.
Mynd: Rúta hleypir ferðafólki út í miðbænum á Djúpavogi.