Vorverkum sauðfjárbænda seinkað um tvær til þrjár vikur

gunna hofteigi agust14Kalt vor hefur gert það að verkum að vorverk sauðfjárbænda eru mun seinna á ferðinni en ella. Féð hefur verið lengur heima á túnum sem aftur seinkar heyskap.

„Það eru flestir að verða lausir við féð núna en eru vanir að vera lausir við það fyrir sautjándann," segir Guðrún Agnarsdóttir bóndi á Hofteigi á Jökuldal en hún er formaður Félags sauðfjárbænda á Fljótsdalshéraði og Fjörðum.

Kuldatíð í maí og júní hefur haft þau áhrif að gróður er 2-3 vikum síðar á ferðinni en í meðal ári sem þýðir að bændur hafa ekki getað sleppt sauðfé sínu á afrétt. „Það eru enn fannir í fjöllum og gróður í neðra landinu er líka mjög seinn."

Guðrún fellst samt ekki á að vorið hafi verið slæmt þótt það hafi verið kalt. Ekki hafi verið bleytutíð sem einnig reynir mjög á kindurnar.

Bændur hafa því getað látið féð út á tún, gegn því að geta komið þeim í húsaskjól þegar þess þyrfti. Ekki hafi þurft að hýsa oft vegna veðurs. „Það hefur nánast sloppið til."

Enn er alls óvíst hvaða áhrif vorið hefur á afurðir í haust. Grasið grænkar fljótt þegar fannirnar fara og kindurnar elta nýgræðinginn upp. Þroski þeirra veltur frekar á hvernig rætist úr því sem eftir af sumrinu.

En þegar kindurnar eru lengur á beit á túnunum seinkar það slætti. Í Hofteigi er til dæmis útlit að mest verði heyjað í ágúst. Þá eru þurrkar oft stopulli þannig að heyið verður ekki jafn gott sem aftur gæti haft áhrif til lengri tíma. „Það er hætta á að menn nái ekki eins góðum heyjum."

Víða um land hefur orðið vart við ærdauða. Þeir dýralæknar á svæðinu sem Austurfrétt hefur rætt við kannast ekki við hann eystra og fæstir bændur heldur.

Austfirskir bændur tala frekar um ungar kindur, þriggja til fjögurra vetra gamlar, sem þrifist hafi illa og þannig er raunin líka á Hofteigi. „Það var óvenju mikið af ungum ám sem litu ekki nógu vel og var erfitt að fóðra."

Guðrún bendir hins vegar á að þessar kindur hafi átt erfiðan uppvöxt með ýmist erfiðum vorum eða haustum. Hún fagnar því rannsóknum á sauðfé sem stendur til að gera um víða um land í kjölfar ærdauðans sem einkum hefur verið á Norður- og Vesturlandi.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.