Af hverju eru Egilsstaðir og Fellabær ekki á Facebook?

egilsstadir 03072013 0001 webSpurning fyrirsagnarinnar hefur kvalið margan manninn á Fljótsdalshéraði um árabil, en fyrir þá sem ekki vita þá er staðreyndin sú að á samskiptamiðlinum Facebook er hvorki hægt að velja Egilsstaði né Fellabæ sem heimabæ sinn.

Ástæðan fyrir þessu er öllu saman er ókunn. Töluverður fjöldi Héraðsbúa hefur gengið til liðs við Facebook-hópinn „Við viljum skrá Egilsstaði og Fellabæ, sem heimabæ á facebook“. Meðlimir hópsins eru í dag tæplega 400 talsins og hafa ýmsar leiðir verið reyndar til að fá Facebook til að bregðast við þessari stöðu.

Haddur Áslaugsson, kerfisstjóri hjá Fljótsdalshéraði, stofnaði Facebook-hópinn á sínum tíma og hann hefur lagt fram ítrekaðar beiðnir til Facebook um að kippa þessu í lag á síðustu misserum árum og hvatt aðra í hópnum til að gera slíkt hið sama. Þrátt fyrir það, hefur verið fátt um svör og orsakir vandamálsins liggja enn á huldu.

Margir Héraðsbúar hafa brugðist við þessu vandamáli með þeim hætti að skrá heimabæ sinn sem Egilstad, sem er smábær í sunnanverðum Noregi. Aðrir hafa gripið til þess ráðs að skrá Hallormsstað eða Eiðar sem heimabæ sinn, en það er mögulegt, rétt eins og það er mögulegt að skrá alla aðra þéttbýlisstaði á Austurlandi – og eftir því sem Austurfrétt kemst næst, Íslandi öllu – sem heimabæi sína.

Eitt er það að einstaklingum þyki leiðinlegt að geti ekki skráð heimabæi sína, en annað og öllu alvarlega er að þessi staða hamlar einnig fyrirtækjum á svæðinu við að nota Facebook í markaðssetningu á vörum sínum og þjónustu.

Facebook býður upp á að fyrirtæki geti keypt auglýsingar sem birtast í fréttaveitu notenda og mögulegt er að beina auglýsingum bara að þeim sem búa í ákveðnum bæjarfélögum, til að ná til rétts markhóps. Eins og gefur að skilja er það afar vandasamt fyrir fyrirtæki á Fljótsdalshéraði, þar sem ekki er hægt að ná til íbúa á Egilsstöðum og í Fellabæ á þennan hátt.

Þá hamlar þetta einnig markaðssetningu svæðisins út á við, en Facebook og aðrir netmiðlar verða sífellt stærri þáttur í markaðssetningu til ferðamanna.

Ekki er ljóst hvort þessi vandi verði leystur í bráð, en það er alltaf hægt að halda áfram að reyna að setja pressu á stórfyrirtækið Facebook og fá þá til að leysa þetta hvimleiða vandamál.

Mynd: Frá Egilsstöðum

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.