Unnið dag og nótt á Egilsstaðanesi

egilsstadanesVerið er að endurnýja stofnlögn hitaveitunnar á milli Egilsstaða og Fellabæjar. Unnið hefur verið dag og nótt að verkinu undanfarið og allt gengið samkvæmt áætlun, samkvæmt Guðmundi Davíðssyni, framkvæmdastjóra Hitaveitu Egilsstaða og Fella.

„Það er verið að endurnýja stofnlögn hitaveitunnar. Við erum að leggja nýja stofnlögn fyrir Fellabæ og væntanlegt flugvallarsvæði. Einnig er verið að leggja ljósleiðarastrengi,“ sagði Guðmundur í samtali við Austurfrétt.

„Hitaveitupípan sem er þarna fyrir var lögð 1979 og er alltof grönn. Hún flytur ekki það gríðarlega vatnsmagn sem þörf er fyrir.“

Verktakar hafa þverað þjóðveginn tvisvar sinnum og hefur það verið gert á nóttunni, svo að sem minnst hætta skapist vegna umferðar um nesið. Seinni þverunin var gerð síðastliðna nótt og segir Guðmundur allt hafa gengið vel hingað til. „Það má segja að það eina sem hafi verið að bögga okkur sé hitastigið og rakinn í loftinu, en að öðru leyti hefur þetta gengið mjög vel.“

Þrátt fyrir að kuldinn og rakinn hafi gert mönnum lífið leitt þá má að sögn Guðmundar ef til vill þakka hitastiginu það að umferðin um þjóðveginn hafi verið minni en reiknað var með.

Ylur ehf. vinnur verkið fyrir HEF, en fyrirtækið átti lægsta boð í verkið, sem var boðið út í apríl.

Áætluð verklok á Egilsstaðanesi eru um miðjan ágúst og þá tekur næsta verkefni Hitaveitunnar við. „Við ætlum að klára lögn sem við lögðum 2012 og liggur frá „menntaskólastígnum“ við Gálgaás og upp að Tjarnarbraut. Að þeim áfanga loknum verður hægt að malbika þann stíg og þá getum við komist gangandi eða hjólandi beina leið frá íþróttahúsinu við Tjarnarbraut að íþróttahúsinu í Fellabæ,“ sagði Guðmundur.

Mynd: Frá framkvæmdum á nesinu. Unnið hefur verið dag og nótt að verkinu, en þegar ljósmyndara bar að garði var líklega kaffitími.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.