Fiðrildin hætta starfsemi – Styrkja fimleikadeild Hattar um rúma milljón

IMG 1712Í gær lauk 40 ára sögu þjóðdansafélagsins Fiðrildanna á Fljótsdalshéraði með formlegum hætti á Gistihúsinu á Egilsstöðum. Eignum félagsins var ráðstafað til góðra málefna og starfseminni slitið, en lítil starfsemi hefur verið í félaginu undanfarin ár. Fiðrildin ákváðu að gefa leikskólum á Fljótsdalshéraði vönduð hljómflutningstæki og þá fékk fimleikadeild Hattar ríflega 1,1 milljón króna til tækjakaupa.

Þráinn Skarphéðinsson fór yfir langa og farsæla sögu Fiðrildanna í stuttu máli, en félagið var stofnað árið 1975 og starfaði af krafti í 35 ár, en síðustu ár hefur starfsemi félagsins farið minnkandi. Meðlimir voru á tímabili 60 talsins og Fiðrildin hafa farið í fjölmargar utanlandsferðir, auk þess að standa fyrir danskennslu í grunnskólum víða um Austurland og sameina félagsmenn sína í því áhugamáli sem dansinn er.

Félagið var alla tíð vel rekið og félagsgjöld stóðu undir kostnaði við æfingaaðstöðu. Peningar sem komu inn vegna námskeiða og kennslu runnu beint í félagssjóðinn, en aðaltekjulind félagsins var þó Fiðrildablaðið, sem kom út árlega í 19 ár.

Efnistök Fiðrildablaðsins voru aðallega handverk og þjóðmenning og auglýsingarnar gáfu umtalsverðar tekjur sem runnu í ferðasjóð og nú þegar félagið slítur starfsemi sinni átti það töluverðar eignir, sem ákveðið var að ráðstafa til góðra málefna.

„Það er kannski óvenjulegt að félag með góða fjárhagsstöðu hætti rekstri en áhugi Íslendinga á þjóðlegum hefðum er bara ekki mikill,“ sagði Þráinn. Lítil nýliðun hefur verið í félaginu og krafturinn í starfinu hefur minnkað á undanförnum árum.

Börn og fimleikafólk fá stuðning Fiðrildanna
Sem áður segir veittu Fiðrildin leikskólum á Fljótsdalshéraði vönduð hljómflutningstækia að gjöf, sem ættu að nýtast börnunum þar og starfinu í heild sinni vel. Þá fékk fimleikadeild Hattar styrk að andvirði 1.155.000 kr. sem ætlaður er til tækjakaupa. Þráinn sagði að það spilaði stóran þátt í ákvörðun Fiðrildanna að fimleikadeildin væri að fást við dans, rétt eins og Fiðrildin.

Auður Vala Gunnarsdóttir, yfirþjálfari fimleikadeildarinnar, var klökk er hún tók á móti styrknum og í raun flestir viðstaddir, enda verið að kveðja félag sem hefur veitt meðlimum sínum ómælda gleði og verið áberandi í menningarlífi Fljótsdalshéraðs um langt skeið.

„Ég er mjög þakklát, en um leið er sorg í mínu hjarta. Maður er alinn upp með Fiðrildunum, það var enginn 17. júní án Fiðrildanna og þau komu í skólana og voru mjög virk. Ég hef verið hvött til að koma á æfingar og núna er ég bara svolítið sár yfir því að hafa ekki sparkað í rassinn á mér og farið, því mér finnst rosalega gaman að dansa,“ sagði Auður Vala.

Auður Vala sagði viðurkenninguna frá Fiðrildunum gríðarlega og að fimleikadeildin muni nýta gjöfina til þess að bæta aðstöðu til danskennslu í fimleikunum. Þessi styrkur sé ein sú mesta og besta viðurkenning sem fimleikadeildin hafi nokkurntímann fengið.

Mynd: Fiðrildi og styrkþegar frá leikskólunum og fimleikadeildinni komu saman á Gistihúsinu á Egilsstöðum í gær.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.