Guðmundur Bjarnason látinn
Guðmundur Bjarnason, fyrrverandi bæjarstjóri Fjarðabyggðar, lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað á laugardagsmorgun.Guðmundur fæddist 17. júlí árið 1949 í Neskaupstað, yngstur þriggja barna Láru Halldórsdóttur og Bjarna Guðmundssonar.
Guðmundur varð stúdent frá Menntaskólanum á Laugarvatni 1969 og lauk BA-prófi í almennum þjóðfélagsfræðum frá HÍ 1975.
Hann starfaði sem kennari við Gagnfræðaskólann í Neskaupstað 1973-1977 og var starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað 1977-1991.
Guðmundur var bæjarstjóri í Neskaupstað 1991-1998, fyrsti bæjarstjóri Fjarðabyggðar 1998 og gegndi því starfi til 2006.
Hann starfaði síðustu árin hjá Alcoa Fjarðaáli. Guðmundur sat í fjölda stjórna og ráða á sínum starfsferli og fékk fjölda viðurkenninga fyrir þau störf, meðal annars á vegum íþróttahreyfingarinnar.
Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er Klara Ívarsdóttir.