Engin tilboð í Hallormsstaðarskóla
Engin formleg tilboð bárust í Hallormsstaðarskóla áður en frestur til þess rann út í lok júní. Húsnæðið verður auglýstur aftur hjá fasteignasölum innan skamms.Bæjarráð staðfesti sölumeðferðina á fundi sínum í gær. Í fundargerð starfshóps um málefni skólans kemur fram að engin formleg tilboð hafi borist áður en frestur rann út 30. júní síðastliðinn.
Þar kemur hins vegar fram að aðilar hafi sýnt áhuga á viðræðum um framtíðarafnot skólahúsnæðisins. Þeim verður boðið á næsta fund hópsins.
Gengið hefur verið frá samningi um sumarleigu um sturtuaðstöðu í íþróttahúsinu og hluta skólahúsnæðisins við ferðaþjónustuaðila á svæðinu.
Starfshópurinn vinnur einnig að því að gera upp framtíðareign á búnaði úr skólanum og að selja íbúðir á Fjósakambi á Hallormsstað þar sem kennarar bjuggu áður.
Ákveðið var á nýliðnum vetri að leggja af grunnskóla á Hallormsstað eftir um hálfrar aldar starf.