Varaformaður FÍB efins um Fjarðarheiðargöng: Heiðin er nú oft opin

bormenn fjardarheidi agust14 0008 webVaraformaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) hefur áhyggjur af öryggi og umhverfi Fjarðarheiðarganga. Hann hvetur til þess að menn skoði að sameina Austfirði með styttri göngum milli Fjarðanna í suðri.

„Það vantar ekki nema 2-3 göng til að loka þessum hring, frá Breiðdalsvík yfir á Stöðvarfjörð og frá Fáskrúðsfirði yfir á Stöðvarfjörð. Það myndi gera Fjarðabyggð að mjög skemmtilegu byggðarlagi með tengingum milli lítilla byggðarkjarna.

Þetta sagði Ólafur Kr. Guðmundsson, sem einnig er verkefnisstjóri EuroRAP umferðaröryggisverkefnisins hérlendis og alþjóðlegur akstursíþróttadómari, í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Í samantekt EuroRAP árið 2010 var Norðfjarðarvegur um Oddsskarð og Suðurfirði metinn einn hættulegasti vegur landsins. Þá sat Ólafur fundi eystra í tengslum við gerð nýrra Norðfjarðarganga.

Í viðtalinu í morgun kallaði hann ítrekað eftir að jarðgangagerð eystra yrði „skoðuð vítt og kalt með þarfir allra" og langtímahugsun í huga.

„Við eigum að horfa til langs tíma frekar en staka hluti. Við verðum að læra af Vaðlaheiðarmistökunum og láta pólitíkina ekki vera með fingurna í hlutunum. Við verðum að leysa þetta faglega án pólitíkur eða sérhagsmuna."

Ólafur lýsti ýmsum efasemdum um Fjarðarheiðargöng. Þau yrðu lengstu göng landsins upp á eina 13 kílómetra og það kallaði á öryggisráðstafanir.

„Ég er alltaf smeykur við svona löng lokuð göng," sagði Ólafur sem sagði að á þau þyrfti 24ra tíma vöktun.

Þá hafði hann áhyggjur af vötnunum á heiðinni auk þess sem þar er uppistöðulón. „Hún er kúpt með fullt af vötnum og þá klingja einhvers staðar Vaðlaheiðargöng. Það verður að rannsaka í hörgul hvort hætta sé á vatni," sagði Ólafur og bætti við: „Fjarðarheiðin er nú oft opin." Þetta væri „bara spurning um veturinn."

Út frá þessum forsendum virtist Ólafur frekar tala með göngum frá Norðfirði til Seyðisfjarðar í gegnum Mjóafjörð en sagði hins vegar að aðalmálið væri að „Fjarðabyggð tengist betur."

Ólafur hvatti til að í framhaldi gagnagerðar á Suðurfjörðum yrði þjóðvegur nr. 1 fluttur af Breiðdalsheiði niður á firði og síðan yrði Berufjörður þveraður til að losna við síðustu malarkaflana á Hringveginum. Þar með yrði kominn láglendisvegur frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. „Þá gætum við hætt að hugsa um Öxi."

Ólafur sagði að jarðangamálin yrði að skoða út frá mannfjölda og hvert fólk sæki vinnu. Þegar samgöngumálin verði lagfærð sé hægt að sameina sveitarfélögin. „Seyðisfjörður gæti sameinast Fjarðabyggð og jafnvel Fljótsdalshérað líka."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.