Hreindýraveiðar hafnar: Sjö tarfar felldir á veiðisvæði 7

hreindyr 010Á miðnætti hófst hreindýraveiðitímabilið og samkvæmt Jóhanni G. Gunnarssyni hjá Umhverfisstofnun á Egilsstöðum er nú þegar búið að fella sjö tarfa, alla á veiðisvæði 7 í Djúpavogshreppi. Ekki er óvanalegt að veiðin fari hratt af stað, en róist síðan örlítið eftir fyrstu helgina.

„Það er nú oft svona fyrstu tvo til þrjá dagana, þá eru menn spenntir og svo róast þetta oft aftur eftir fyrstu helgina. Það má náttúrlega bara veiða tarfana núna, en kýrnar má ekki veiða fyrr en 1. ágúst,“ sagði Jóhann í samtali við Austurfrétt.

Víða er þoka í fjöllum, en þó eru aðstæður skárri suðurfrá en þær hafa verið undanfarna daga, að sögn Jóhanns. „Mönnum lýst svo sem ekkert á veðrið eins og það er búið að vera, en menn reyna að vera bjartsýnir og vonast til þess að það létti til. Þoka og rigning er nú versta veður sem hægt er að fá á hreindýraveiðum, en við verðum bara að vona það að veðrið skáni svo menn geti veitt þennan stóra kvóta.“

Búið er að skerpa á því að veiðimenn hafi gögnin sín með sér til veiða og merki dýrin áður en þau eru flutt af fellistað. „Menn hafa svo sem verið að gera það og það er bara aðeins verið að skerpa á því að menn hafi þessi gögn sem við sendum þeim meðferðis,“ segir Jóhann.

Eftirspurnin eftir leyfum var svipuð og hún hefur verið síðastliðin tvö ár, en þó segir Jóhann töluvert fleiri hafa sóst eftir því að fá tarfaleyfi. Þessa dagana er Jóhann að úthluta svokölluðum nóvemberleyfum, en þá má veiða kúakvóta á svæðum 7, 8 og 9. „Ég fer að bjóða mönnum þau leyfi í dag og á morgun,“ sagði Jóhann að lokum.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.