Bíða væntanlega eftir niðurstöðum starfshóps áður en ákvörðun um millilandaflug liggur fyrir

thota egs 14042015 0007 webVerkefnastjóri hjá Austurbrú segir að líklega verði beðið eftir niðurstöðum starfshóps um millilandaflug frá Egilsstöðum áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir um flug þaðan til Bretlands. Stór bresk ferðaskrifstofa áformar vikulegt flug næsta sumar.

„Það er von á niðurstöðum starfshópsins í lok ágúst og mögulega fást einhver teikn fyrr en við erum að vinna í þessu," segir María Hjálmarsdóttir.

Markaðssetning Egilsstaðaflugvallar hefur verið hennar aðalverkefni og hún á meðal annars sæti í starfshópnum.

Vefurinn Túristi hafði í kvöld eftir Clive Stacey, eiganda ferðaskrifstofunnar Discover the World, að til standi að fljúga milli Egilsstaða og Gatwick flugvallar við London alla sunnudaga frá 22. maí til 2. september næsta sumar.

Í fréttinni kemur fram að ferðaskrifstofan áætli að ljúka undirbúningi að Egilsstaðafluginu í lok þessa mánaðar.

Discover the World mun vera stærsta einstaka evrópska ferðaskrifstofan sem flytur ferðamenn til Íslands en áætlað er að 14-15 þúsund manns komi hingað á hennar vegum árlega.

Austurfrétt greindi fyrstur miðla frá mögulegu flugi Discover the World í byrjun júní en Clive kom austur í vetur til að skoða aðstæður.

Forsætisráðuneytið skipaði í vor starfshóp til að kanna möguleika á millilandaflugi til Egilsstaða og Akureyrar. Hópurinn fjallar meðal annars um markaðsstuðning og aðrar ívilnanir við slíkt flug. Sem fyrr segir er ekki von á niðurstöðum hópsins fyrr en í lok ágúst.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.