Blængur farinn til veiða
Nýr Blængur NK, sem Síldarvinnslan keypti í byrjun mánaðarins, hélt til veiða um síðustu helgi. Forstjóri fyrirtækisins segir að keypt hafi verið öflugt skip sem bjóði upp á ýmsa möguleika.Blængur hét síðast Freri RE og kemur frá Ögurvík. Upphaflega hét skipið Ingólfur Arnarson og var smíða á Spáni. Það kom nýtt til landsins í janúar 1974.
Bæjarútgerð Reykjavíkur átti það fyrstu ellefu árin en síðan eignaðist Ögurvík það og breytti því frystiskip. Skipinu var breytt mikið árið 2000 og meðal annars lengt um tíu metra.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir skipið keypt án aflaheimilda til að veiða og frysta um borð en í gögnum Fiskistofu kemur fram að aflaheimildir hafi fyrir helgi verið fluttar frá Bjarti yfir á Blæng.
Gunnþór staðfestir að „einhver uppstokkun verði á skipastól Síldarvinnslunnar," í kjölfarið. „Við teljum okkur vera kaupa öflugt skip sem bíður okkur uppá ýmsa möguleika."
Gísli Jón Hjartarson hjá Ögurvík segir að eftir söluna stefni fyrirtækið að því að ná öllum sínum aflaheimildum á eitt skip en útgerðin gerir úr Vigra RE. Blængur, áður Freri, hefur ekki verið í rekstri síðustu tvö ár vegna ónægra aflaheimilda.
Skipstjóri í fyrstu veiðiferðinni er Sigtryggur Gíslason.
Mynd: Síldarvinnslan