Dæmdur fyrir meiðyrði gagnvart lögregluþjóni: Skeytingarleysi um sannleiksgildi

heradsdomur austurlands hamar 0010 webHéraðsdómur Austurlands dæmdi í dag karlmann á sextugsaldri fyrir meiðyrði í garð lögregluþjóns. Sakfellt var fyrir umæli þar sem lögregluþjónninn var sakaður um að hafa sent ungum stúlkum kynferðisleg skilaboð. Ekki var sakfellt fyrir ásakanir á hendur lögregluþjóninum um einelti.

Ákærði birti í maí 2013 á Facebook-síðu sinni opið bréf til lögreglustjórans á Eskifirði þar sem hann sakaði lögreglumann við embættið um einelti í garð samborgara, hafa gerst sekur um ósiðlega hegðun í fyrra starfi og „sent táningum og unglingsstelpum kynferðisleg skilaboð og jafnframt boðið þeim upp á „afslátt" gegn ???"

Maðurinn hélt því fram að sögusagnir um þetta framferði lögregluþjónsins hefðu lengi verið á kreiki í bæjarfélaginu en íbúar væru hræddir við að stíga fram. Þá kvartaði maðurinn sérstaklega undan ítrekuðum afskiptum lögreglunnar af sér og syni sínum en þeim líkti hann við einelti.

Maðurinn vildi ekki útskýra nánar fælist í orðunum „afsláttur gegn ???" en sagði það liggja í augum uppi. Fyrir dómi hélt hann því fram að með unglingsstelpum hefði hann átt við konur allt að þrítugu.

Lögreglumaðurinn kvaðst ekki hafa haft frekar eftirlit með manninum en öðrum en gefið honum auga í ljósi sögu hans af umferðarlagabrotum. Honum hefði brugðið nokkur við ásökunina um kynferðislegu skilaboðin og málið allt valdið honum talverðum óþægindum.

Vitni könnuðust ekki við ummæli

Tvö vitni sem maðurinn bar fyrir ummælum um gjörðir lögreglumannsins í fyrra starfi könnuðust ekki við þau fyrir dómi.

Fjögur vitni komu fyrir dóminn að beiðni sakbornings. Fyrsta vitnið kvaðst ekki þekkja ákærða en kannaðist við lögreglumanninn sem hefði djöflast í sér en viðurkenndi jafnfram að hafa verið í afbrotum. Hann sagði lögreglumanninn hafa boðið vinkonu sinni að hafa við hann mök til að sleppa við umferðarsekt.

Sonur ákærða kvaðst hafa upplifað nánast daglegt einelti með tilefnislausum afskiptum en viðurkenndi að þau hefðu ekki alltaf verið óréttmæt. Hann hefði kvartað við lögreglustjóra.

Sögðust hafa upplifað áreiti frá lögregluþjóninum

Tvær konur komu fyrir dóminn. Önnur sagði að lögregluþjónninn hefði stöðvað hana fyrir akstur undir áhrifum kannabis. Í kjölfarið hefði hann reynt að fá upplýsingar frá henni um fólk í neyslu. Í eitt skiptið hefði hann knúsað hana og kvaðst vilja vera vinur hennar. Það hefði henni þótt afar óþægilegt og hann verið „perralegur og daðrandi."

Í dóminum kemur fram að hin konan hafi verið augljóslega miður sín og ósátt þar sem lögreglumaðurinn sat á áheyrendabekk þegar hún bar vitni. Hún svaraði játandi þegar hún var spurð hvort hún hefði upplifað áreiti af kynferðislegum toga af hálfu lögregluþjónsins. Hún var ekki spurð frekari spurninga.

Inger L. Jónsdóttir, lögreglustjóri, sagði í vitnisburði sínum að ákærði hefði tveimur árum fyrir skrifin nefnt ávirðingarnar við hana. Hún hefði sagt ásakanirnar alvarlegar og meira þyrfti en bara orðróm til að hefja rannsókn. Hún neitaði því að aðrir en ákærði hefðu kvartað undan kynferðislegu áreiti lögregluþjónsins.

Þá hefði ákærði deilt á flesta lögreglumenn embættisins í skrifum sínum en einkum þennan tiltekna. Því hefði verið komið í kring að hann forðaðist að hafa afskipti af ákærða ef því yrði við komið.

Einelti er afstætt

Upphaflega voru sjö ávirðingar úr opna bréfinu kærð en tveimur þeirra var vísað frá dómi fyrir aðalmeðferð en þau snérust um meinta ósiðlega háttsemi í fyrra starfi.

Fjögur ummæli lutu að meintu einelti og taldi dómurinn þau fela í sér gildisdóm sem ekki krefðist þess að beinar sönnur væru færðar á. Afstætt væri hvenær viss fjöldi atvika væri orðinn að einelti en hvorki hefðu verið sönnur á né leiddar að því sérstakar líkur með framburði að eftirlitið hefði verið óeðlilegt.

Ekki færðar sönnur á réttmæti ummælanna

Ummælin um kynferðislegu skilaboðin og afsláttinn taldi dómurinn hins vegar fela í sér staðhæfingu sem kröfu mætti gera til að væri sönnuð.

Þótt ekki væri útskýrt hvað fælist í afslættinum eða spurningamerkjunum taldi dómurinn ummælin vekja hugrenningar um háttsemi af kynferðislegum toga og misnotkun á stöðu.

Dómurinn taldi ákærða hvorki hafa fært sönnur á réttmæti ummælanna né réttlætt að þau hefðu verið sett fram í góðri trú. Hann hefði ekki rætt við neina þolendur beint eða séð skilaboð frá þeim og engin rök fært fyrir að hann gæti treyst orðum heimildarmanns síns sem ekki væri heldur ljóst hver væri.

Framburður fyrsta vitnisins þótti óljós auk þess sem hann hefði borði sterkan keim af óvild í garð lögregluþjónsins. Enginn stoð hefði heldur verið að finna í framburði fyrri konunnar og framburður þeirrar seinni hefði verið of takmarkaður til af honum mætti draga neinar ályktanir.

Sérlega alvarleg og meiðandi ásökun

Dómurinn taldi að þótt ekki fælist í ummælunum ásökun um refsiverða háttsemi væri um sérlega alvarlega og meiðandi ásökun í garð lögreglumanns að ræða. Ákærði hefði ekki sýnt aðgætni við mat á réttmæti upplýsinga og að auki keyrt úr hófi fram með því að tala um ungmenni.

Ummælin hefðu vegið að mannorði nafngreinds lögreglumanns. Þau væru alvarlegs eðlis og skeytingarleysið um sannleiksgildið hefði verið slíkt að honum yrði að gera refsingu.

Manninum er því gert að greiða 30 þúsund krónur í ríkissjóð innan fjögurra vikna ella sæta fjögurra daga fangelsi. Hann þarf að auki að greiða lögreglumanninum 150 þúsund krónur í bætur og 120 þúsund krónur í málskostnað. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða upp á 950 þúsund krónur skiptast á milli mannsins og ríkisins. Heildarkostnaður hans er því 775 þúsund krónur.

Dómurinn í heild.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.